Erlent

Hafa borið kennsl á árásarmanninn

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásarmaðurinn hét Ian Long og var 28 ára fyrrverandi landgönguliði. Hann er sagður hafa komist nokkrum sinnum í kast við lögin á undanförnum árum.
Árásarmaðurinn hét Ian Long og var 28 ára fyrrverandi landgönguliði. Hann er sagður hafa komist nokkrum sinnum í kast við lögin á undanförnum árum. AP/RMG

Uppfært 15:35
Búið er að bera kennsl á árásarmanninn sem hóf skothríð á veitingastað í Thousand Oaks í Kaliforníu í morgun, þar sem minnst þrettán létu lífið, að árásarmanninum meðtöldum. Hann hét Ian Long og var 28 ára fyrrverandi landgönguliði. Hann er sagður hafa komist nokkrum sinnum í kast við lögin á undanförnum árum.

Nú síðast í apríl þegar lögregluþjónar voru kallaðir til heimilis hans. Þá var Long sagður hafa hagað sér á undarlegan hátt. Sálfræðiteymi var fengið til að meta Long og var ekki talið nauðsynlegt að handtaka hann eða leggja inn.

Long dó á veitingastaðnum og er talið að hann hafi beint byssu sinni að sjálfum sér. Í samtali við fjölmiðla ytra segja nágrannar Long að hann hafi líklega þjáðst af áfallastreituröskun (PTSD).

Tíu til tólf manns voru flutt á sjúkrahús, samkvæmt lögreglu.

Heimildarmenn AP fréttaveitunnar segja hann hafa kastað reyksprengjum inn á veitingahúsið áður en hann hóf skothríð með .45 kalíbera skammbyssu. Maðurinn hóf skothríðina inni á veitingastaðnum Borderline Bar & Grill klukkan 23:20 að staðartíma, eða 7:20 að íslenskum tíma.

Á annað hundrað manns voru inn á staðnum þegar árásin var gerð og þar af voru flestir háskólanemendur.

Eins og áður segir eru tólf látnir og var einn þeirra lögregluþjónninn Ron Helus. Fógetinn Geoff Dean sagði frá dauða Helus á blaðamannafundi í dag og því að Helus hefði verið fyrsti lögregluþjónninn á vettvang árásarinnar. Helus hljóp rakleiðis inn en hann varð fyrir mörgum skotum og féll nánast um leið og hann fór inn um dyr veitingastaðarins. Annar lögregluþjónn dró hann á brott og var hann úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi um klukkustund síðar.

Ástæða árásarinnar liggur ekki fyrir en lögreglan segist ekki telja að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.


Tengdar fréttir

Skotárás á veitingastað í Kaliforníu

Lögregla í Kaliforníu hefur verið kölluð út eftir að tilkynning barst um skotárás á veitingastað í borginni Thousand Oaks. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að fjölmargir hafi særst í árásinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.