Erlent

Hvíta húsið sakað um að dreifa breyttu myndbandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sanders segir Acosta hafa lagt hendur á konuna sem reyndi að taka hljóðnemann af honum.
Sanders segir Acosta hafa lagt hendur á konuna sem reyndi að taka hljóðnemann af honum. AP/Evan Vucci

Hvíta húsið hefur verið sakað um að dreifa myndbandi sem hefur verið breytt, til að réttlæta það að Jim Acosta, fréttamanni CNN, hafi verið meinað að mæta á fleiri blaðamannafundi. Myndband sem Sarah Huckabee Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, birti til að réttlæta bannið virðist hafa verið breytt og virðist hafa komið frá ritstjóra InfoWars.

Acosta hefur verið meinað að mæta á fleiri blaðamannafundi og starfsmenn Hvíta hússins halda því fram að hann hafi lagt hendur á konu sem reyndi að taka hljóðnema af honum á blaðamannafundi í gær.

Sjá einnig: Hvíta húsið bannar fréttamann CNN sem Trump hellti sér yfir

Með myndbandinu sem Sanders birti skrifaði hún að Hvíta húsið myndi ekki „sætta sig við þá óviðeigandi hegðun sem sést greinilega í þessu myndbandi“.

Þessi málflutningur virðist þó byggður á sandi þar sem myndbandið sem Sanders birti virðist hafa verið breytt. Einna ritstjórum samsæriskenningasíðunnar InfoWars, sem er í eigu Alex Jones, hafði birt sama myndband um tveimur klukkustundum áður.

Margir blaðamenn í Bandaríkjunum hafa komið Acosta til varnar og segja myndbandinu hafa verið breytt. Einn þeirra er Andrew Kaczynski, sem einnig vinnur á CNN. Hann segir að völdum köflum hafi verið breytt til að láta líta út fyrir að snerting Acosta og konunnar hafi í raun verið alvarlegri.

Þá vekur það athygli að Sanders endurtísti myndbandinu ekki. Heldur hlóð hún því upp sjálf.

Í samtali við Buzzfeed segir sá sem birti myndband Sanders upprunalega að hann hefði ekki breytt því. Hann hefði upprunalega tekið GIF og breytt því í myndband og segir að það gæti útskýrt muninn á hans myndbandi og öðrum. Það vanti einfaldlega nokkra ramma í myndbandið.

Asha Rangappa, sem vinnur einnig á CNN og er fyrrverandi starfsmaður FBI, segir tíst Sanders vera tilefni til lögsóknar.

Netverji einn sem segist hafa rúmlega fimmtán ára reynslu af því af myndbandavinnu segir ljóst að myndbandi Sanders hafi verið breytt. Sýnir hann útskýringarmyndband máli sínu til stuðnings.

Hér fyrir neðan má sjá tíst fleiri blaðamanna sem hafa gagnrýnt Sanders.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.