Erlent

Kynntu áætlun um gerð manngerðrar eyju fyrir 35 þúsund íbúa í Kaupmannahöfn

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir að eyjan gæti verið tilbúin eftir um fimmtíu ár.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir að eyjan gæti verið tilbúin eftir um fimmtíu ár. Getty
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, var á meðal þeirra sem kynntu í morgun áætlun um gerð nýrrar manngerðrar eyju í dönsku höfuðborginni. Ætlunin er að þar verði byggðar íbúðir fyrir um 35 þúsund manns. DR greinir frá þessu.

„Við viljum búa til eyju. Alveg nýja eyju í Eyrarsundi milli Refshaleøen og Nordhavn. Við höfum valið að kalla hana Lynettehólma. Þetta er risaverkefni,“ sagði Løkke á blaðamannafundinum í morgun.

Frank Jensen, aðalborgarstjóri Kaupmannahafnar, var einnig á fundinum og sögðu þeir Løkke að verkefnið væri liður í því að bregðast við íbúðaskorti í borginni. Með tilkomu fleiri íbúða verði hægt að koma í veg fyrir að fasteignaverð rjúki upp úr öllu valdi þannig að fleiri hafi efni á að búa í borginni.

„Byggja á Lynettehólma með jörð sem kemur úr öðrum verkefnum,“ segir Løkke og bætir við að verkefnið sé einnig liður í því að bregðast við aukinni umferð í borginni, þétta byggð.

Løkke segir að um langtímaverkefni sé að ræða og að eyjan kunni að verða tilbúin eftir um fimmtíu ár, eða árið 2070.

Eyjan á að vera á milli Nordhavn og Refshaleøen.google maps



Fleiri fréttir

Sjá meira


×