Erlent

Braut sér leið inn á flugbrautina og bað flugmanninn að bíða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvélin var á leið til Amsterdam frá Dublin. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Flugvélin var á leið til Amsterdam frá Dublin. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Getty/Dursun Aydemir
Lögregla og flugvallarstarfsfólk á Írlandi stöðvuðu í morgun mann sem hljóp út á flugbraut á flugvellinum í Dublin og biðlaði til flugmannsins að bíða eftir sér.

Samkvæmt frétt BBC sást til mannsins inni í flugstöðinni þar sem hann bankaði á glugga og grátbað flugvallarstarfsfólk að stöðva brottför flugvélarinnar. Hann tók því næst á rás og hljóp út á flugbrautina þar sem umrædd flugvél á vegum flugfélagsins Ryanair var við það að leggja af stað til Amsterdam.

Í yfirlýsingu frá flugvellinum segir að maðurinn hafi ekki komist um borð í vélina, sem tók á loft um 20 mínútum eftir áætlun. Þá var maðurinn á ferð með konu en í yfirlýsingu segir að flugvallarhliðið hafi þegar verið lokað þegar þau bar að garði. Maðurinn hafi þá reiðst og brotið sér leið inn á flugbrautina.

Starfsfólk Ryanair, ásamt lögregluliði á vegum flugvallarins, yfirbugaði manninn á brautinni. Lögregluyfirvöld í Dublin taka nú við málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×