Erlent

40 þúsund hjúkrunarfræðinga og ellefu þúsund lækna vantar til starfa í Bretlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sérfræðingar hafa áhyggjur af stöðu mála innan NHS.
Sérfræðingar hafa áhyggjur af stöðu mála innan NHS. Vísir/Getty
Alls vantar 42 þúsund hjúkrunarfræðinga og ellefu þúsund lækna svo hægt sé að fylla þær stöður sem þörf er á innan bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS. Sérfræðingar segja að takist ekki að lækka þessar tölur stefni í neyðarástand í Bretlandi.

Tölurnar gilda fyrir apríl til júní á þessu ári og sýna að alls eru 11,8 prósent stöður hjúkrunarfræðinga ómannaðar, 9,3 prósent stöður lækna en alls vantar starfsfólk í 9,2 prósent stöður innan NHS, eða alls 108 þúsund manns.

Í frétt BBC segir að horfurnar hafi farið versnandi frá upphafi árs þegar þessar tölu voru lægri, þrátt fyrir að stjórnmálamenn og stjórnendur NHS hafi boðið betri laun og farið í mikla herferð til þess að laða nýtt starfsfólk til starfa hjá NHS.

Þá segir einnig í fréttinni að á sama tíma hafi álag á starfsfólkið sem fyrir er farið vaxandi og að flestar einingar NHS hafi farið umfram fjárheimildir til þess að ráða fólk til starfa tímabundið, svo glíma mætti við vandann.

Haft er eftir Siva Anandaciva, greinanda hjá King's Fund hugveitinni að þessi mikli skortur á hjúkrunarfræðingum sé líklegur til þess að skapa neyðarástand innan heilbrigðisþjónustunnar í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×