Erlent

„Má ég daðra við þig?“: Nýtt myndband varpar ljósi á „ósæmilega hegðun“ Harvey Weinstein

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Weinstein spyr Thompson hvað hún ætli að gera eftir fundinn. Hann mælir sér svo mót við hana á hóteli í New York, þar sem hún sakar hann um að hafa nauðgað sér.
Weinstein spyr Thompson hvað hún ætli að gera eftir fundinn. Hann mælir sér svo mót við hana á hóteli í New York, þar sem hún sakar hann um að hafa nauðgað sér. Mynd/Skjáskot

Sky News-fréttastofan birti í dag myndband af fundi kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein, sem fjölmargar konur hafa sakað um nauðgun og kynferðisofbeldi, og athafnakonunnar Melissu Thompson. Í myndbandinu sést Weinstein faðma, snerta og ræða við Thompson á afar kynferðislegum nótum. Hún sakar hann um að hafa nauðgað sér inni á hótelherbergi tveimur klukkustundum síðar.

Fundurinn var haldinn í september árið 2011 á skrifstofu fyrirtækis Weinsteins, The Weinstein Company, í New York-borg. Thompson var mætt á fund Weinstein til að kynna fyrir honum nýtt myndbandakerfi sem hún vonaðist til að hann myndi kaupa. Thompson tók sjálf upp umrætt myndband af fundinum en upptakan var hugsuð sem hluti af kynningunni.

„Má ég daðra við þig?“

Í samtali við fréttamann Sky segir Thompson að hún hafi búist við því að funda með markaðsfulltrúum fyrirtækisins en í staðinn mætti Weinstein einn á fundinn og læsti að sér. Í myndbandinu sést hann heilsa Thompson, sem hyggst taka í höndina á honum, en hann faðmar hana að sér.

„Má ég daðra við þig?“ spyr Weinstein svo snemma á upptökunni. „Sjáum til, örlítið,“ svarar Thompson.

Weinstein hefur verið sakaður um að brjóta gegn fjölda kvenna. Vísir/AP

Þegar nokkuð er liðið á kynninguna spyr Thompson: „Tölfræði er heit, er það ekki?“ Weinstein svarar að bragði: „Hún er heit. Þú ert heit.“

Í kjölfarið teygir Weinstein sig undir borðið sem þau sitja við og handleggur hans hverfur úr augsýn. Thompson segir að Weinstein hafi þar verið að strjúka fótlegginn á henni.

„Gefðu mér svolítinn bita af þér. Láttu mig fá það. Þetta er í lagi, viltu halda áfram að gera þetta?“ spyr Weinstein. Thompson segir þá við Weinstein að hönd hans sé komin of hátt upp með læri hennar.

Segir Weinstein hafa nauðgað sér tveimur tímum síðar

„Ég held að hann hafi verið að leika sér að mér eins og köttur að mús alveg frá byrjun,“ segir Thompson við fréttamann Sky News.

Í lok myndbandsins biður Weinstein hana um að hitta sig á hóteli tveimur klukkutímum síðar. Thompson tjáir fréttamanni Sky News að hún hafi haldið að um væri að ræða viðskiptafund. Hún segist hafa ímyndað sér að fundurinn færi fram í anddyri hótelsins, umkringd fólki, og að þá hefði hún ekki þurft að vera ein með honum.

Weinstein leiddi Thompson hins vegar upp á hótelherbergi er þau hittust. Hún sakar hann um að hafa nauðgað sér inni á herberginu. Weinstein þvertekur fyrir ásakanirnar, líkt og aðrar ásakanir um kynferðisofbeldi sem lagðar hafa verið fram á hendur honum síðan í október í fyrra.

Myndbandið má horfa á í heild sinni hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.