Erlent

Bandaríkin blanda sér í flugvallamál Grænlands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvöllurinn í Nuuk eftir stækkun, samkvæmt teikningu. Flugbrautin færi úr 950 metrum upp í 2.200 metra.
Flugvöllurinn í Nuuk eftir stækkun, samkvæmt teikningu. Flugbrautin færi úr 950 metrum upp í 2.200 metra. Grafík/Kalaalit Airports.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur lýst yfir vilja til að taka þátt í flugvallauppbyggingu Grænlands í því skyni að styrkja stöðu Bandaríkjanna og NATO á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Ekki er nema vika liðin frá því Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, flaug til Nuuk til að skrifa upp á samning um tugmilljarða stuðning danskra stjórnvalda við flugvallaverkefni Grænlendinga.

Eftir undirritun flugvallasamningsins í Nuuk í síðustu viku. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, mynduðu sig með einum mótmælenda samningsins. Mynd/TV-2, Danmörku.

Danskur sérfræðingur um varnarmál segir þessa gjafmildi Dana í raun snúast um að halda Kínverjum frá því að ná ítökum á Grænlandi en grænlenskir ráðamenn höfðu í fyrra fundað með valdhöfum í Kína um þann möguleika að Kínverjar kæmu að innviðauppbyggingu. Í framhaldinu var kínverskum verktaka boðið að taka þátt í forvali vegna flugvallagerðar. 

Núna hefur þetta valdatafl stórveldanna á norðurslóðum opinberast betur því bandaríska varnarmálaráðuneytið sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem Bandaríkjamenn lýsa yfir vilja sínum til að koma að flugvallagerð á Grænlandi, og taka fram að það gildi bæði um flugvelli fyrir hernaðar- og borgaralegt flug. Í yfirlýsingunni kemur fram að tilgangurinn með slíkri fjárfestingu yrði að styrkja stöðu Bandaríkjanna og NATO á norðurslóðum og Norður-Atlantshafssvæðinu og koma í veg fyrir að spenna aukist þar. 

Yfirlýsing varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að varnarmálaráðherra Danmerkur hafi fyrr á árinu staðfest að bandarísk stjórnvöld hafi komið á framfæri áhyggjum yfir því ef kínverskur verktaki yrði fenginn til verksins. 

Bandaríski flugherinn starfrækir enn Thule-herstöðina á norðvestur Grænlandi, sem byggð var upp á tímum kalda stríðsins, en þar er lengsta flugbraut landsins, 3.000 metra löng. Á árum seinni heimstyrjaldar byggðu Bandaríkjamenn einnig upp þá flugvelli Grænlands sem næstir koma í röðinni, í Kangerlussuaq, áður Syðri-Straumfirði, með 2.800 metra braut, og Narsarsuaq, með 1.800 metra braut. Enginn þessara flugvalla er nálægt grænlenskum þéttbýlisstöðum.

Flugvöllurinn í Kangerlussuaq er eini millilandaflugvöllur Grænlands með áætlunarflugi á þotum til Danmerkur. Þaðan eru farþegar fluttir áfram með minni flugvélum og þyrlum til helstu byggða Grænlands. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Flugvallaáform Grænlendinga miða við að bæirnir Nuuk og Ilulissat fái 2.200 metra flugbraut hvor og Qaqortoq á Suður-Grænlandi fái 1.500 metra braut. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.