Erlent

Turnbull ýtt til hliðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Scott Morrison tekur við embætti forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison tekur við embætti forsætisráðherra Ástralíu. vísir/getty
Fjármálaráðherrann Scott Morrison var í nótt gerður að forsætisráðherra Ástralíu. Skipun hans er afsprengi hatrammra deilna innan Frjálslynda flokksins um fráfarandi forsætisráðherra, Malcolm Turnbull, sem sakaður var um að bera meginábyrgð á fylgistapi flokksins að undanförnu.

Deilurnar voru leiddar til lykta með atkvæðagreiðslu í nótt, þar sem flokksmenn völdu hver skyldi taka við keflinu af Turnbull. Valið stóð á milli tveggja ráðherra, fyrrnefnds fjármálaráðherra og innanríkisráðherrans Peter Dutton - sem lýst er sem hörðum andstæðingi Turnbull. Morrison hlaut 45 atkvæði gegn 40 atkvæðum Dutton.

Turnbull er fjórði forsætisráðherra Ástralíu sem vikið er úr embætti af flokksystkinum sínum á síðastliðnum 10 árum.

Frjálslyndi flokkurinn hefur fengið harða útreið í skoðanakönnunum og héraðskosningum að undanförnu. Spjótin tóku fljótt að beinast að forystumanninum Turnbull sem átti í vök að verjast vegna stefnu sinnar í orkumálum, sem breska ríkisútvarpið segir að hafi stangast á við skoðanir íhaldssamari flokksmanna.

Dutton ákvað því að bjóða sig fram til formennsku í flokknum á þriðjudag, með það fyrir augum að ýta Turnbull til hliðar, en varð ekki kápan úr því klæðinu. Þegar ljóst var að Turnbull hafði tapað stuðningi margra þungavigtarmanna í flokknum ákvað Morrison einnig að bjóða sig fram. Fráfarandi forsætisráðherra er þá, þegar framboð Morrison kom fram, sagður hafa ákveðið að víkja úr embætti.

Morrison tók fyrst sæti á þingi árið 2007 og gegndi ráðherraembætti innflytjendamála í ríkisstjórn Tony Abbot. Hann fékk bæði lof og last fyrir að framfylgja harðri stefnu í málaflokknum. Þrátt fyrir að höfða til hófsamra stuðningsmanna Frjálslyndra er Morrison jafnframt sagður vera einn helsti leiðtogi kristilega arms flokksins, en á síðasta ári setti hann sig til að mynda upp á móti frumvarpi um lögleiðingu samkynja hjónabanda.


Tengdar fréttir

Turnbull áfram formaður

Staða Turnbull er þó enn talin nokkuð viðkvæm og alls óvíst hvort hann nái að halda í formennskuna mikið lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×