Umfjöllun, viðtöl og einkunni: Víkingur - KA 2-2 | Ótrúleg lokamínúta tryggði Víkingi stig

Árni Jóhannsson í Víkinni skrifar
vísir/ernir
Leikur Víkings og KA í 18. umferð Pepsi deildar karla var leikur fyrri hálfleiksins í raun og veru. Sá var opin og skemmtilegur að stórum hluta en sá seinni var mjög bragðdaufur. Í fyrri hálfleik voru gestirnir frá Akureyri klárlega betri aðilinn en heimamenn áttu sínar stundir þar sem með smá heppni hefði eitthvað geta gerst. Aftur á móti var markvörður heimamanna virkilega góður í dag og átti sinn þátt í því að leikar enduðu 2-2 en hann átti nokkrar stórglæsilegar vörslur í góðum færum gestanna.

KA menn skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik og í seinni hálfleik átti greinilega að sitja til baka og halda Víkingum fyrir framan sig en heimamenn áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi en færi þeirra voru alltaf nærrum því góð.

Hins vegar þá fékk Víkingur tvö föst leikatriði í seinni hálfleik þar sem KA menn gerðu sig seka um að missa einbeitinguna og fá á sig tvö mörk þar af annað mark þegar 94 mínútur voru komnar á klukkuna og missa þeir þar með af tveimur stigum sem hefðu getað hjálpað þeim í að halda vonum um Evrópusæti á lífi. Hugsanlega áttu KA menn að eiga innkastið sem skóp jöfnunarmarkið en það skiptir ekki máli að lokum þar sem dómarinn dæmir og halda þarf einbeitingu allan leikinn.

Afhverju endaði leikurinn með jafntefli?

Það má aldrei hætta og gefast upp í knattspyrnu fyrr en að búið er að flauta leikinn af. Það sýndu drengirnir hans Loga Ólafss. í dag þegar þeir náðu að nýta tvö föst leikatriði til að skora mörkin sem tryggðu annað stigið. Seinna markið kom skv. bókum blaðamanns þegar 94:18 voru komin á klukkuna en fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma. Þetta eina stig bætir kannski ekki fyrir stigin sem töpuðust á móti Fjölni í seinasta leik en gætu orðið mikilvæg í lokabaráttunni um sæti í Pepsi deildinni.

Hverjir stóðu upp úr?

Alex Freyr Hilmarsson er hetja dagsins en besti maður heimamanna var markvörðurinn Andreas Larsen sem hélt sínum mönnum inn í leiknum en KA menn hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk og sérstaklega í fyrri hálfleik. Larsen varði hinsvegar oft mjög vel og þar af allavega tvisvar sinnum þegar Ásgeir Sigurgeirsson var kominn einn á móti honum.

Maður leiksins var samt Hallgrímur Mar Steingrímsson en hann stýrði spili sinna manna þegar þeir létu á það reyna og skoraði gott mark að auki.

Hvað gekk illa?

Leikurinn gekk illa í seinni hálfleik. Lítið var um færi og hraðinn var lítill. Það var því fátt um fína drætti. Dramatíkin gerði síðan vart við sig þannig að þessa leiks verður minnst fyrir það að endingu.

Hvað næst?

Víkingur hefur ekki alveg sagt skilið við botnbaráttuna en eins og þjálfari þeirra sagði í viðtali eftir leik þá er þessi niðurstaða sú næst besta. Þetta stig gæti verið það sem skilur að að lokum en í næstu umferð ferðast þeir til Eyja og keppa við ÍBV sem er erfiður leikur.

KA menn ættu að vera á lygnum sjó en hefðu viljað stigin þrjú í dag til að þrýsta sér hærra í töflunni og hugsanlega í einhverja Evrópu baráttu en úr þessu ætti það að vera hæpið þó tölfræði sénsinn sé enn til staðar. Þeir spila við Íslandsmeistar Vals í næstu velli á heimavelli og er það einnig erfiður leikur.

Logi Ólafsson: Það er enn smá töggur í okkur„Já það er rétt að maður á aldrei að hætta og gefast upp“, voru fyrstu orð Loga Ólafssonar þjálfara Víkings eftir mikla dramatík í Víkinni fyrr í dag.

„Við vorum lélegir í fyrri hálfleik og vorum mjög opnir þar sem við gáfum mörg færi á okkur. Seinni hálfleikurinn var virkilega góður af okkar hálfu og fannst mér þetta sanngjarnt úr því sem komið var og mjög gott að ná þessu stigi. Það sýnir það að það er enn smá töggur í okkur“.

Það var ekki mikið að gerast í seinni hálfleik og virtust KA menn með góð tök á heimamönnum sem náðu ekki að skapa sér hættuleg færi og sagði Logi að það hafi verið vel viðbúið á móti KA sem finnst gott að spila þétta vörn og sækja hratt en Víking tókst í tvö skipti að opna gestina og skora en „hefði verið skemmtilegra ef það hefði gerst oftar“.

En þetta stig hlýtur að gera mikið fyrir Víking í baráttunni sem er framundan en þeir eru ekki alveg hólpnir frá fallbaráttunni.

„Stigið gerir vissulega mikið fyrir okkur þó að það sé alltaf betra að fá þrjú stig þá er það næst best að fá eitt stig og það verður kannski þýðingarmikið í framhaldinu og þiggjum við þetta stig með þökkum“.

Srdjan Tufegdzic: Ég trúi því ekki að við höfum ekki afgreitt þennan leik mikið fyrrÞjálfari KA manna var skiljanlega hundfúll með niðurstöðu leiksins og var hann beðinn um að reyna að koma tilfinningum sínum í orð eftir þessa miklu dramatík á lokamínútunni.

„Ég held að það sé best bara að ég haldi mínum tilfinningum inni í mér. Ég trúi því ekki enn þá að við höfum ekki unnið þennan leik. Við vorum 2-0 yfir og áttum örugglega fimm eða sex dauðafæri til viðbótar til að klára þennan leik. Ég bara trúi því ekki að við höfum ekki afgreitt þennan leik mikið fyrr til að sleppa við þessar spennandi lokamínútur“.

„Einnig fannst mér nokkrar ákvarðanir hjá dómara leiksins vera skrýtnar þar sem þeir voru að fá innköst og aukaspyrnur á hættulegum stöðum. Eitthvað sem aldrei var í fyrri hálfleik en það er mjög erfitt að koma tilfinningum sínum í orð akkúrat núna“.

Tufa var spurður að því hvort það væri hægt að útskýra þetta með einbeitingarleysi og sagði hann: „Er það ekki alltaf þannig í svona föstum leikatriðum. Það var ekkert að gerast hjá þeim nema þessi föstu leikatriði en ég á eftir að skoða þetta betur en ég er sjokki eftir þennan leik og þetta er rosalega súrt“. 

„Þetta stig gerir ekkert fyrir okkur sérstaklega vegna þess hvernig þetta spilaðist. Við ætluðum okkur þrjú stig í dag til að halda okkur í efri hlutanum og við ætlum að halda áfram að berjast fyrir því en þetta er rosalega svekkjandi að missa þetta niður í jafntefli. Mér fannst við betra liðið allan tímann og allt undir kontról verandi 2-0 yfir og fengum fullt af færum til að klára leikinn. Svo vorum við kannski óheppnir á að hitta á markmann í stuði en við áttum að gera betur í þessum færum samt og svo halda þetta út“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira