Enski boltinn

Guardiola um VAR: „Kemur mér ekki við“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola á hliðarlínunni í dag
Guardiola á hliðarlínunni í dag Vísir/Getty
Pep Guardiola sagði það ekki koma sér við hvort myndbandstækni verði tekin upp í ensku úrvalsdeildinni. Hans menn fengu á sig mark í dag sem átti ekki að standa.

Manchester City gerði 1-1 jafntefli við Wolverhampton Wanderers á útivelli í dag. Willy Boly kom Wolves yfir snemma í seinni hálfleik með marki þar sem hann virtist skalla boltann í hendina á sér og þaðan í markið.

„Það kemur mér ekki við,“ sagði Guardiola við Sky Sports eftir leikinn spurður út í markið og hvort ætti að taka upp myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni.

„Forráðamenn deildarinnar ráða þessu og þegar þeir ákveða að fá VAR inn þá kemur það inn. Ég hrósa dómaranum fyrir hans störf og segi ekki meir.“

Um leikinn sjálfan sagðist Guardiola ekki vera nógu ánægður með varnarleik síns liðs.

„Þetta var góður leikur en við fengum of margar skyndisóknir á okkur. Við klúðruðum auðveldum færum og bjuggum til nóg af færum til þess að vinna en þetta er gott stig.“

„Aguero hitti stöngina í fyrri hálfleik, stundum dettur boltinn inn stundum ekki, þannig er það. Við vorum ekki nógu þéttir varnarlega í dag, en í heildina spiluðum við vel,“ sagði Pep Guardiola.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×