Ákall eftir VAR þegar nýliðarnir náðu jafntefli gegn City

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Willy Boly skoraði mark sem átti ekki að standa í dag.
Willy Boly skoraði mark sem átti ekki að standa í dag. Vísir/Getty
Allir stuðningsmenn þess að fá myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildina fengu fullkomið sönnunargagn til þess að draga fram í rökræðum með leik Wolves og Manchester City í dag.

Nýliðar Wolves komust yfir á 57. mínútu með marki sem hefði líklega ekki fengið að standa ef myndbandsdómgæslu hefði notið við. Willy Boly skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Joao Moutinho en boltinn fór greinilega af kolli Boly og í hendina á honum og þaðan í markið.

Enn fremur fór boltinn líklega af kolli samherja í teignum áður en Boly komst í hann, svo hann var þá rangstæður í þokkabót. Markið stendur þó.

Strax í næstu sókn vildu leikmenn City fá vítaspyrnu og áttu líklega eitthvað til síns máls. Ruben Neves fór aftan í David Silva í teignum og Spánverjinn féll til jarðar. Ekkert dæmt.

Silva féll nokkuð auðveldlega niður í teignum en hins vegar fór ekki á milli mála að Neves fór í Silva og þetta hefði líklega verið aukaspyrna úti á velli.





Englandsmeistararnir náðu þó að fá markið sem þeir áttu skilið. Á 69. mínútu tók Ilkay Gundogan aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn, Aymeric Laporte kom á ferðinni inn í þvöguna á teignum og stangaði boltann í netið. Þar var enginn vafi um lögmæti marksins.

Leikurinn var opinn og skemmtilegur strax frá fyrstu mínútu og til þeirrar síðustu. Nýliðar Wolves stóðu vel í Manchester City, sóttu vel þegar þeir fengu tækifæri til og ógnuðu sigrinum alveg eins og Englandsmeistararnir.

Þrátt fyrir marktækifæri á báða bóga kom sigurmarkið ekki og niðurstaðan jafntefli, fyrsti leikurinn á tímabilinu þar sem City misstígur sig og stutt er búið af því.

Pep Guardiola kann að vera bitur yfir því að mark Wolves átti ekki að standa en það verður ekki tekið af nýliðunum að þeir áttu stigið skilið miðað við frammistöðuna sem þeir buðu upp á í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira