Íslenski boltinn

Ólafur Páll: Það er munur á að vera Óli eða Óli

Einar Sigurvinsson skrifar
Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis
Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis vísir/bára
„Við fáum á okkur eitthvað draumamark eftir að hafa verið með yfiröndina í 35 til 40 mínútur í fyrri hálfleik. Það var ákveðið högg rétt fyrir hálfleikinn því við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik,“ sagði Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis eftir 5-3 tap sinna manna gegn Val í kvöld.

„Við sýndum karakter þegar við komum til baka eftir annað markið í seinni hálfleik. Við spiluðum mjög vel, nánast að öllu leiti í þessum leik, en Valsmenn bara refsuðu okkur þegar við gerðum mistök.“

Annað mark Valsmanna kom snemma í seinni hálfleik, að því er virtist eftir vegna einbeitingarleysis í vörn Fjölnismanna.

„Þetta hefur gerst nokkrum sinnum í sumar, að við erum að fá á okkur klaufaleg mörk, mögulega útaf einbeitingarleysi. Þetta er ekki í fyrsta skipta sem við fáum á okkur mark í byrjun seinni hálfleiks.“

Á blálok leiksins var Ólafi vísað af velli fyrir kjaftbrúk, en hann var ósáttur með þá ákvörðun.

„Ég fór aðeins of langt út fyrir boðvanginn og spurði um uppbótartímann, af hverju hann væri svona stuttur. Ég hugsa að hann hefði átt að vera lengri. Ég sagði fjórða dómaranum að standa upp og sýna smá kjark á móti Valsmönnum. Ég orðaði það kannski ekki alveg svoleiðis, en ég bað hann um að sýna hreðjar og það orsakaði þetta rauða spjald.“

Á heildina litið var Ólafur ekki ánægður með dómgæsluna í leiknum í kvöld.

„Það er munur á að vera Óli [Jóhannesson] eða Óli [Páll Snorrason] í dag. Ég met það bara þannig. Gamli karlinn hérna fær aðeins meira heldur en ég í þessum leik,“ sagði Ólafur Páll að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×