Enski boltinn

Sérstakur innkastssérfræðingur ráðinn til Liverpool

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Liverpool ætlar sér að veita Manchester City samkeppni um Englandsmeistaratitilinn í vetur. Liðið hefur enn ekki fengið á sig mark og allt er í blóma í rauða hluta borgarinnar.

Forráðamenn Liverpool hafa tekið næsta skref í átt að því að fullkomna lið sitt, skref sem hefur ekki verið tekið áður í ensku úrvalsdeildinni. Þeir eru að ráða inn sérstakan innkastsþjálfara.

Já, þið lásuð rétt. Liverpool hefur fengið til sín mann til þess að fara yfir innköst.

Thomas Gronnemark er á reynslu að vinna með krökkum í akademíu Liverpool og ef það gengur vel mun aðalliðið fá hann til sín líka.

Daninn hefur tileinkað sér föst leikatriði síðustu fimmtán ár og er sérfræðingur í því hvernig innköst eru sem áhrifaríkust, sérstaklega á síðasta þriðjungnum.

Hann hefur unnið með tveimur dönskum úrvalsdeildarliðum og telur að með hans hjálp hafi liðin náð að skora samtals 20 fleiri mörk.

Markaskorun hefur reyndar ekki verið mikið vandamál hjá Liverpool, en það er ljóst að aldrei er of mikið af mörkum svo hver veit nema Gronnemark muni vera lykillinn að fyrsta Englandsmeistaratitli Liverpool í 29 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×