Enski boltinn

Hjörvar ánægður með Klopp: Losaði sig við þýska trúðinn sem eyðilagði Meistaradeildina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alisson hefur tekið við hönskunum af Karius
Alisson hefur tekið við hönskunum af Karius Vísir/Getty
Jurgen Klopp keypti brasilíska markvörðinn Alisson til Liverpool í sumar til þess að taka við af Loris Karius sem aðalmarkvörður liðsins. Strákarnir í Messunni á Stöð 2 Sport ræddu Alisson og hvort hann væri púslið sem vantaði hjá Liverpool.

„Ég horfði aðeins á hann í gær og hann var alveg tæpur á köflum,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason. Liverpool vann 1-0 sigur á Brigton um helgina.

„Þetta er bara týpan af markmanni sem Jurgen Klopp vildi fá. Hann vildi fá mann sem er góður í fótbolta. Hann er ískaldur en svona er bara nútíma markmaðurinn,“ svaraði Hjörvar Hafliðason.

Í settinu í gær var Gunnleifur Gunnleifsson, einn besti markmaður sem Ísland hefur alið. „Það eiga eftir að koma mistök hjá honum, alveg pottþétt, en svo á hann eftir að koma í veg fyrir fullt af færum með því að spila framarlega, koma út úr teignum og hlaupa,“ sagði Gunnleifur.

Karius varði mark Liverpool á síðasta tímabili. Hann svo gott sem gerði út um feril sinn hjá Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor þegar hann gerði tvö risa stór mistök sem kostuðu mörk, sigurinn og bikarinn. Stuðningsmenn Liverpool vildu hann burt og Klopp var á sama máli.

„Ég er líka ánægður með hvað Klopp er vægðarlaus. Hann var með einhvern þýskan trúð í markinu sem eyðilagði fyrir honum Meistaradeildina. Hann fór með úrslitaleikinn og henti honum í ruslið fyrir Liverpool,“ sagði Hjörvar.

„Hann er búinn að henda honum til Tyrklands í tvö ár, skrifað undir í dag og bless. Þú verður að vera svona til að vinna titla og ná árangri. Hann áttaði sig á því að Karius væri bara ekki nógu góður markmaður.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×