Enski boltinn

„Moura er ótrúlegur leikmaður“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Moura fagnar marki ásamt Harry Kane í gær.
Moura fagnar marki ásamt Harry Kane í gær. vísir/getty
Lucas Moura, framherji Tottenham, fær mikið lof eftir frammistöðu sína í upphafi ensku úrvalsdeildarinnar. Moura skoraði tvö mörk í 3-0 sigri á Man. Utd í gær.

Eftir leikinn fékk Moura mikið lof frá Jan Vertonghen, varnarmanni Tottenham og belgíska landsliðsins, sem segir hann ótrúlegan leikmann.

„Við spilum á móti honum á æfingu á hverjum einasta degi og það er martröð að spila gegn honum. Hann leggur hart að sér og getur skotið með hægri og vinstri,” sagði Belginn við London Evening Standard.

„Hann er einnig með hraða og er frábær fótboltamaður og betri persóna ef eitthvað er, svo allir eru ánægðir. Auðvitað missti hann af undirbúningstímabilinu á síðasta tímabili og það er mikilvægt að skilja hvernig við spilum og hafa orkuna í það því framherjar okkar hlaupa mikið.”

Brasilíumaðurinn gekk í raðir Tottenham fyrir síðasta tímabil en gekk illa að festa sig í sessi. Byrjunin á þessu tímabili hefur þó verið góð.

„Hann átti frábært undirbúningstímabil eftir því sem ég hef heyrt. Hann er ótrúlegur maður, allir í búningsklefanum eru ánægðir. Ég held að þú hafir séð það. Allir tóku utan um hann.”

„Hann átti nokkur erfið ár í París og svo spilaði hann ekki eins mikið og hann vildi á síðustu leiktíð. Á þessu ári er hann hér og er ótrúlegur leikmaður.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×