Enski boltinn

Hent út úr ensku bikarkeppninni vegna smáskuldar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enski bikarinn í höndum  Malcolm Clements hjá Yaxley FC. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint.
Enski bikarinn í höndum Malcolm Clements hjá Yaxley FC. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint. Mynd/Twitter/@FA
Enska utandeildarfélagið Litherland Remyca var ekki slegið út úr enska bikarnum heldur ákvað enska knattspyrnusambandið að vísa félaginu úr keppni.

Litherland Remyca er frá Merseyside-svæðinu eins og Liverpool og Everton og hafði unnið 4-2 sigur á Charnock Richard í forkeppni bikarsins.

Liðið notaði hins vegar óafvitandi ólöglegan leikmann í leiknum, því einn leikmanna Litherland Remyca átti að vera í banni í þessum leik.

Bannið var þó ekki vegna gulra eða rauðra spjalda heldur fyrir að greiða ekki smásekt hjá sínum gamla félagi.

Umræddur leikmaður skuldaði heil tíu pund, tæpar 1400 íslenskar krónur, hjá sínu fyrra félagi. Forráðamenn Litherland Remyca vissu aftur á móti ekki af þessu og þetta leyndarmál leikmannsins kostar félagið á endanum sæti í bikarnum.





„Þetta er mikið áfall á mörgum sviðum fyrir okkar félag,“ segir í fréttatilkynningu frá Litherland Remyca sem BBC segir frá.

„Refsingin er stór og mikil fyrir okkar litla félag en við verðum að hrista þetta af okkur, læra af reynslunni og koma sterkari til baka,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Charnock Richard er því áfram inn í enska bikarnum og mætir Leek Town í næstu umferð sem fer fram 4. september næstkomandi.

Litherland Remyca getur nú einbeitt sér að því að gera góða hluti í North West Counties deildinni en draumurinn um að komast alla leið í aðalkeppni enska bikarsins er dáinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×