Erlent

Merkel telur Dyflinnarreglugerðina í raun óvirka

Þórir Guðmundsson og Kjartan Kjartansson skrifar
Merkel og Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar.
Merkel og Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar. Vísir/EPA

Angela Merkel kanslari Þýskalands segir að Dyflinnarreglugerðin sé í raun óvirk og að það þurfi að gera breytingar á fyrirkomulagi innflytjendamála í Evrópu. Þetta sagði hún á blaðamannafundi með forsætisráðherra Spánar Pedro Sanchez.

Merkel hefur verið í heimsókn á Spáni. Í gær tók gildi samkomulag milli Spánar og Þýskalands um að Þjóðverjar geti snúið hælisleitendum við, sem upphaflega komu til Evrópu í gegnum Spán. Þar er aðallega um að ræða fólk sem hefur lagt út á Miðjarðarhafið frá Marokkó og Túnis, alls 24 þúsund manns á þessu ári. Talið er að 1.500 manns hafi látið lífið við að reyna að komast á bátkænum yfir hafið - eða sjö einstaklingar á dag.

Merkel og Sanchez sögðust sammála um að nauðsynlegt væri að tryggja að sanngjarna dreifingu á hælisleitendum innan Evrópu þannig að þeir endi ekki allir í strandríkjunum við Miðjarðarhafið.

Meginákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar er að það Schengen-ríki sem hælisleitandi kemur fyrst til beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar hans. Á grundvelli hennar hafa íslensk stjórnvöld meðal annars vísað fjölda hælisleitenda til annarra Evrópulanda eins og Grikklands og Ítalíu þangað sem flestir þeirra koma fyrst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.