Innlent

300 þúsund króna sekt fyrir utanvegaakstur frönsku ferðamannanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferðamennirnir greiddu sekt sína á lögreglustöðinni á Egilsstöðum í morgun.
Ferðamennirnir greiddu sekt sína á lögreglustöðinni á Egilsstöðum í morgun. vísir/gva

Frönsku ferðamönnunum sex, sem uppvísir urðu að utanvegaakstri á hálendinu um helgina, var gert að greiða samtals þrjú hundruð þúsund króna sekt fyrir brot sín. Þetta staðfestir Jónas Vilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Franskir ferðamenn ollu varanlegum skemmdum með utanvegaakstri

Vísir greindi frá málinu í gær en ferðamennirnir ollu varanlegum skemmdum á jarðvegi við Þríhyrningsá. Þeir höfðu verið á ferð um veginn F910, einnig þekktur sem Austurleið, á þremur bílum.

Jónas segir í samtali við Vísi að ferðamennirnir hafi komið til skýrslutöku á lögreglustöðina á Egilsstöðum um klukkan ellefu í morgun. Málinu lauk með sektargreiðslu, hundrað þúsund krónum á hvern bíl. Samtals nemur sektin því þrjú hundruð þúsund krónum á hópinn og hafa ferðamennirnir þegar gengið frá greiðslu.

„Það var aðeins farið yfir málin. Við erum ekki að fara að taka létt á svona hlutum, hvorki hjá Íslendingum né útlendingum. Þetta er það sem koma skal ef menn verða staðnir að svona brotum,“ segir Jónas um skýrslutökuna og sektargreiðslurnar í dag.

Nokkuð bar á því að fólk teldi sektir á bilinu 50 til 500 þúsund krónur of lágar fyrir utanvegaakstursbrot, þar eð varðstjóri sagði í samtali við Vísi í gær að sekt Frakkanna yrði lægri en sú sem samlandar þeirra við Kerlingafjöll greiddu í maí. Sú sekt nam 400 þúsund krónum, þ.e. 200 þúsund krónum á mann. Í því samhengi vísaði Jónas á ákæruvaldið, sem hefði sektarfjárhæðir á sinni könnu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.