Innlent

Rýming hafin en ekki vitað um fjölda fólks á svæðinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Skaftárhlaupi árið 2015.
Frá Skaftárhlaupi árið 2015. Vísir/Vilhelm

Rýming á svæðinu við Skaftá, þar sem hlaup er hafið, er byrjuð. Um er að ræða svæði við Langasjó, Sveinstind-Skælinga og að Hólaskjóli. Hálendishópar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg standa nú að rýmingunni. Lokað var fyrir umferð um Fjallabaksleið nyrðri um klukkan 16 í dag.

Jónas Guðmundsson hjá aðgerðastjórn Landsbjargar segir í samtali við Vísi að ekki sé vitað hversu mikið af fólki er á göngu um svæðið. Staðfest sé þó að fólk er á svæðinu.

Atburðarásin í dag hefur verið mun hraðari en búist var við en hlaupið kom undan jökli og náði fyrsta mæli skömmu eftir 13 í dag. Jónas segir hálendishópa Landsbjargar þegar hafa verið á svæðinu og voru þeir komnir niður í Hólaskjól þegar rýmingin hófst. Tuttugu manns eru nú að störfum, bæði á göngu og bílum.

„Það er bara klukkutími síðan við lögðum í þetta þannig að nú er verið að taka næstu skref,“ segir Jónas.

Hver eru næstu skref?

„Það var verið að senda SMS á alla gemsa sem eru þarna á ákveðnu svæði, mesta hættusvæðinu. Við nýttum okkur kerfi almannavarna til þess. Næsta skref er svo formleg lokun á Fjallabaksleið nyrðri.“

Uppfært klukkan 16:10:
Búið er að loka Fjallabaksleið nyrðri austan Eldgjár og við Hvamm í Skaftártungum. Þá hefur brúnni yfir Eldvatn einnig verið lokað vegna hlaupsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á korti má sjá Sveinstind og árfarvegi Skaftár, Eldvatns og Kúðafljóts. Um 80% hlaupvatnsins gæti skilað sér í hinar síðarnefndu, en þær mynda vestari kvíslina. Hlaupið náði mæli á tindinum um 13:15 í dag. Vísir

Tengdar fréttir

Ferðafólk haldi sig fjarri farvegi Skaftár

Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.