Innlent

Ferðafólk haldi sig fjarri farvegi Skaftár

Þórgnýr Einar Albertsson og Jónas Már Torfason skrifar
Frá vettvangi Skaftárhlaups árið 2015. Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag.
Frá vettvangi Skaftárhlaups árið 2015. Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag. vísir/vilhelm

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur hvorki virkjað rýmingaráætlun né neyðaráætlun vegna hlaups í Skaftá. Hættustig er einnig óbreytt. Ekkert hefur verið rætt um að rýma hálendið í kringum Skaftárjökul.

Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag. Samkvæmt Veðurstofunni er þó útlit fyrir að hlaupið verði minna en hlaupið 2015 þar sem styttri tími líður nú á milli hlaupa.

Friðgerður Brynja Jónsdóttir, lögreglufulltrúi Almannavarna, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ekki stæði til að rýma svæðið. „Það stendur ekki til að rýma neitt, það er í rauninni engin byggð þarna,“ sagði hún og bætti við að ekki hefði verið rætt um rýmingu hálendis í kringum Skaftárjökul.

Varað var sérstaklega við því í tilkynningu Veðurstofunnar að hlaup gæti orðið í Hverfisfljóti ef hlaup kemur að hluta undan Síðujökli. Þá kæmi hlaupið fram við brúna á þjóðvegi 1 en ekki er talið líklegt að svo verði.

Einnig var varað við brennisteinsvetni í hlaupvatninu og sprungumyndun í kringum ketilinn og var ferðafólki því ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals, jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls sem og kötlunum sjálfum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×