Innlent

Rennsli eykst hratt í Skaftá

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á korti má sjá Sveinstind og árfarvegi Skaftár, Eldvatns og Kúðafljóts, en um 80% hlaupvatnsins gæti skilað sér í hinar síðarnefndu. Hlaupið hefur náð mæli á tindinum.
Á korti má sjá Sveinstind og árfarvegi Skaftár, Eldvatns og Kúðafljóts, en um 80% hlaupvatnsins gæti skilað sér í hinar síðarnefndu. Hlaupið hefur náð mæli á tindinum. Vísir

Vatn úr Skaftárhlaupi náði fyrsta mæli við Sveinstind um klukkan 13:15 í dag, að sögn Snorra Zóphoníassonar, sérfræðings Veðurstofunnar. Hlaup í Skaftá er því hafið.



Snorri segir í samtali við Vísi að þetta þýði að hlaupið vaxi mjög hratt. Miðað við þessa mælingu gerir Snorri því ráð fyrir að hlaupið nái í byggð eftir um átta klukkustundir.



Samkvæmt vefmæli Veðurstofunnar mældist rennsli í Skaftá við Sveinstind 253,3 rúmmetrar á sekúndu klukkan 14 en var orðið 392,2 rúmmetrar á sekúndu klukkan 15. Rennslið eykst því jafnt og þétt og gerir Snorri ráð fyrir að aukningin haldi áfram. Til viðmiðunar er venjulegt rennsli í ánni undir 100 rúmmetrum á sekúndu en í stórum hlaupum nær það yfirleitt um 1400. Þá bendir Snorri á að rennslið í síðasta Skaftárhlaupi árið 2015 hafi náð 3000 rúmmetrum á sekúndu.



Eins og áður hefur komið fram var fyrst búist við því að Skaftárhlaup kæmi undan jökli í kvöld eða í nótt og hlaupið því hafið fyrr en gert var ráð fyrir. Þá hafa Veðurstofa og lögregla hvatt fólk til að halda sig fjarri svæðinu. Lögregla gerði jafnframt ráð fyrir því í dag að lokað verði fyrir umferð um Fjallabaksleið nyrðri og yfir brúna um Eldvötn nú síðdegis.



Síðasta hlaup í Skaftá var í október fyrir tæpum þremur árum og var það stærsta hlaup frá upphafi mælinga en tjón vegna hlaupsins þá var metið á hundruð milljóna króna.



Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Ferðafólk haldi sig fjarri farvegi Skaftár

Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×