Erlent

Twitter ætlar ekki að banna alræmdan samsæriskenningasmið

Kjartan Kjartansson skrifar
Alex Jones hefur notað samfélagsmiðla til að básúna vanstilltar samsæriskenningar sínar.
Alex Jones hefur notað samfélagsmiðla til að básúna vanstilltar samsæriskenningar sínar. Vísir/EPA

Þrátt fyrir að Alex Jones, stjórnandi samsæriskenningasíðunnar Infowars, hafi sakað foreldra myrtra barna um að vera leikara og dreift staðlausum stöfum um harmleiki eins og hryðjuverkin 11. september í New York ætlar samfélagsmiðilinn Twitter ekki að banna hann líkt og önnur stór tæknifyrirtæki hafa gert. Twitter telur Jones ekki hafa brotið reglur miðilsins.



Youtube og Facebook eru á meðal þeirra miðla sem hafa lokað reikningum Infowars með þeim rökum að miðillinn stundi hatursorðræðu. Jones og fjöldi íhaldsmanna hafa sakað samfélagsmiðlarisana um að ritskoða efni sem er þeim ekki þóknanlegt.



Jack Dorsey, forstjóri Twitter, segir hins vegar að Jones og Infowars verði ekki bannað á sínum miðli. Ástæðan sé sú að Jones hafi ekki brotið reglur Twitter. Sagði hann að það væri rangt að láta undan utanaðkomandi þrýstingi frekar en halda sig við reglurnar.



Margir hafa orðið til að gagnrýna þau rök Dorsey og benda á tilfelli þar sem notendur hafa verið bannaðir, að þeirra mati fyrir minni sakir en bornar hafa verið á Jones og Infowars.

Foreldrar myrtra barna áreittir vegna lyga Jones

Jones er alræmdur fyrir lygar og framandlegar samsæriskenningar en hann hefur engu að síður safnað fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlum.



Hann sakaði demókrata í Bandaríkjunum um að ætla að hefja borgarastríð á þjóðhátíðardaginn 4. júlí, hann hefur sagt að „kynseginhyggja“ (e. transgenderism) sé hluti af áætlun bandarísku leyniþjónustunnar um að „fækka mannkyninu“ og að samþykkt á geðsjúkdómum sé „ill barnaníðingaáætlun um að kynlífsvæða og eyðileggja börn“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.



Foreldrar tveggja barna sem voru myrt í fjöldamorðinu í Sandy Hook-grunnskólanum í Bandaríkjunum árið 2012 hafa stefnt Jones fyrir ærumeiðingar. Jones hefur ítrekað haldið því fram að árásin hafi aldrei átt sér stað heldur hafi bandaríska alríkisstjórnin sett hana á svið með leikurum til að hafa átyllu til að taka skotvopn af fólki.



Lygar Jones um árásina hafa meðal annars leitt til þess að foreldrarnir hafa orðið fyrir áreitni fylgjenda Infowars bæði á netinu og í persónu. Það leiddi til þess að foreldrar grátbáðu Mark Zucerkberg, forstjóra Facebook, um að loka á samsæriskenningar Jones og Infowars.


Tengdar fréttir

Infowars bregst illa við banninu

Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones og vefsíða hans, Infowars, eru ógn við áform valdaelítunnar um að stofna tjáningar­frelsislaust heimsveldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×