Erlent

Ráðherra segir að léleg vinnubrögð hafi orsakað stíflubrestinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flóðið hrifsaði til sín heilu þorpin.
Flóðið hrifsaði til sín heilu þorpin. Vísir/epa
Óviðunandi vinnubrögð verktakans PNPC ollu því að stíflan sem fyrirtækið var að smíða í Laos brast á mánudaginn. Þetta hefur Khammany Inthirath, orkumálaráðherra ríkisins, fullyrt en ríkismiðillinn KPL greindi frá í gær. Fjöldi húsa skemmdist þegar vatnsflaumurinn flæddi yfir nærliggjandi svæði og að minnsta kosti tuttugu fórust.

Samtök ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN) sendu í gær flugvélar með birgðir fyrir fórnarlömb hamfaranna, en ríkisstjórnin hafði biðlað til nágrannaríkjanna um aðstoð. Sendu samtökin meðal annars hreinlætisvörur, tjöld og matvæli.

Þá greindi KPL frá því í gær að Singapúr hefði sent styrk að andvirði um tíu milljónir króna og að þar í landi hygðist Rauði krossinn standa fyrir neyðarsöfnun. Singapúrski herinn sendi sömuleiðis flugvélar sínar með tjöld, matvæli, drykkjarvatn, lyf og gúmmíbáta. „Þessi styrkur singapúrsku ríkisstjórnarinnar mun vonandi gagnast vel í hjálparstarfinu í Att­apeu-fylki,“ var haft eftir Dominic Goh, sendiherra Singapúr í Laos.

KPL greindi einnig frá því í gær að alþjóðabankastofnanir hafi á þriðjudag sent ríkisstjórninni samúðarskeyti. „Við erum reiðubúin til þess að vinna náið með ríkisstjórn Laos að hjálparstarfinu og að því að aðstoða fórnarlömbin. Alþjóðabankinn styður nú þegar við hamfaravarnir í Laos og mun halda þeirri aðstoð áfram á næstu mánuðum, ef ríkisstjórnin óskar þess,“ sagði í skeytinu. þea


Tengdar fréttir

Biðla til allra í Laos um hjálp

Harmleikur í suðurhluta Laos. Hundraða saknað eftir að ókláruð stífla brast. Ekki er vitað hversu margir fórust í hamförunum en tæp sjö þúsund misstu heimili sín. Hundrað milljarða framkvæmd. Íbúar nærri framkvæmdasvæðinu áður verið fluttir burt gegn vilja sínum og hafa kvartað yfir vatns- og matarskorti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×