Enski boltinn

Tími fyrir Torreira: Arsenal kynnti nýjan leikmann í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucas Torreira í búningi Arsenal.
Lucas Torreira í búningi Arsenal. Mynd/Arsneal
Úrúgvæmaðurinn Lucas Torreira er orðinn leikmaður Arsenal en félagið staðfesti nýjasta leikmanninn sinn á miðlum sínum í dag.

Arsenal kaupir miðjumanninn frá ítalska félaginu Sampdoria þar sem hann hefur spilað undanfarin tvö tímabil. Hann var áður í láni hjá Pescara í eitt tímabil.

Lucas Torreira er 22 ára afturliggjandi miðjumaður sem var fastamaður í landsliði Úrúgvæ á HM í fótbolta þar sem hann og félagar hans komust í átta liða úrslitin.

Arsenal kynnti Lucas Torreira á Twitter með því að segja að nú væri „Tími fyrir Torreira“ eins og sjá má hér fyrir neðan.







„Við höfum nú samið við ungan og hæfileikaríkan leikmann. Ég hef haft unun af því að horfa á hann spila með Sampdoria undanfarin tvö tímabil. Við sáum hann líka standa sig mjög vel á HM,“ sagði Unai Emery, nýr knattspyrnustjóri Arsenal.

„Hann er ungur en er þegar kominn með mikla reynslu. Hann vill halda áfram að vaxa sem knattspyrnumaður. Við bjóum Lucas velkominn til Arsenal og hlökkum til að sjá hann með okkur á undirbúningstímabilinu,“ sagði Unai Emery.

Lucas Torreira verður í treyju númer ellefu hjá Arsenal en hann tekur við því númeri af Mesut Özil sem færir sig í tíuna.

Unai Emery hafði áður fengið þrjá nýja leikmenn til félagsins en það eru Svisslendingurinn Stephan Lichtsteiner (frá Juventus), þýski markvörðurinn Bernd Leno (frá Bayer Leverkusen) og gríski varnarmaðurinn Sokratis Papastathopoulos (frá Borussia Dortmund).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×