Íslenski boltinn

Þór/KA á toppinn eftir sigur á Stjörnunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sandra María Jessen skoraði þriðja mark Þórs/KA
Sandra María Jessen skoraði þriðja mark Þórs/KA vísir/eyþór
Íslandsmeistarar Þórs/KA fóru í toppsæti Pepsi deildar kvenna með sigri á Stjörnunni á Akureyri. ÍBV sigraði Suðurlandsslaginn í Vestmannaeyjum.

Toppbaráttan í Pepsi deildinni er gríðarlega jöfn og Blikar geta endurheimt toppsætið með sigri á Val í kvöld. Stjarnan hefði getað blandað sér í toppbaráttuna af fullum krafti með sigri en á þó enn möguleika á því að halda í við efstu þrjú liðin.

Heimakonur komust yfir eftir klafs í teignum upp úr hornspyrnu á 22. mínútu og voru 1-0 yfir þegar flautað var til hálfleiks.

Anna Rakel Pétursdóttir kom Þór/KA yfir á 49. mínútu og fyrirliðinn Sandra María Jessen bætti þriðja markinu við tíu mínútum seinna, bæði komu mörkin eftir sendingu frá Söndru Mayor.

Anna María Baldursdóttir náði að skora sárabótamark fyrir Stjörnuna á 76. mínútu og það var ekki af verri gerðinni, glæsimark beint úr aukaspyrnu frá miðjuhringnum.

Þegar markið kom var enn nægur tími fyrir Stjörnuna til þess að koma til baka en nær komust þær ekki, lokatölur 3-1.

ÍBV og Selfoss mættust í Suðurlandsslag á Hásteinsvelli. Bæði lið voru með 8 stig fyrir leikinn í 6. og 7. sæti.

Sigríður Lára Garðarsdóttir skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks. Shameeka Fishley átti misheppnað skot sem endaði á kollinum á Sigríði Láru og hún skallaði beint í markið.

ÍBV fer með sigrinum upp fyrir Grindavík í 5. sæti deildarinnar.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×