Erlent

Trump vekur reiði Breta með því að hlamma sér í stól Churchills

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Þessi mynd hefur vakið mikla reiði í Bretlandi
Þessi mynd hefur vakið mikla reiði í Bretlandi Hvíta húsið
„Þú móðgaðir þjóðina, réðst á heilbrigðiskerfið okkar, lést drottninguna fara hjá sér, grófst undan sérstaka milliríkjasambandinu, niðurlægðir forsætisráðherrann okkar... og svo sest þú yfirlætisfullur og lætur taka mynd af þér í hægindastól Winstons Churchill!“ – svona hefst grein breska dagblaðsins The Mirror sem er einn reiðilestur yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Íhaldssamir Bretar supu margir hveljur þegar þeir sáu myndbandsupptöku af Donald Trump ganga í veg fyrir drottninguna.

Það er með öllu bannað að ganga framar en drottningin samkvæmt aldalöngum hefðum, hvað þá að ganga í veg fyrir hana. Ekki bætti úr skák að drottningin virtist sjálf vera að reyna að útskýra málið fyrir Trump sem tók illa leiðbeiningum.

Þá var hann seinn til fundar við drottninguna og lét hana bíða eftir sér í vandræðalegri þögn fyrir framan fjölmiðla. Elísabet er 92 ára gömul og þurfti að standa í meira en tíu mínútur í sumarhitanum.

Þegar forsetanum var síðan sýndur hægindastóll sem Winston Churchill notaði á stríðsárunum var hann fljótur að koma sér vel fyrir og láta taka mynd sem Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi ríkisstjórnarinnar, setti beint á netið.

Trump virðist hafa tekist að sameina hluta bresku pressunnar gegn sér með því að hlamma sér í stólinn. Eru margir á því að hann hafi sýnt gríðarlega óvirðingu með uppátækinu, sérstaklega í ljósi þess hvernig hann talaði um land og þjóð á meðan á opinberri heimsókn hans til Bretlands stóð.

Breskir stjórnmálamenn hafa einnig blandað sér í umræðuna. Stephen Doughty, þingmaður Verkamannaflokksins, segir að mörgum Bretum hljóti að vera hverft við að sjá myndina af Trump í sæti Churchills. Hann sé ekki aðeins versti Bandaríkjaforseti sögunnar heldur maður sem eigi ekki á nokkurn hátt skilið að vera nefndur í sömu andrá og hinn dáði Churchill.

Samflokkskona hans á breska þinginu, Ruth Smeed, tekur í sama streng. Segir hún að Churchill hafi barist gegn rasisma og fasisma og í ljósi bæði orða og gjörða Trumps eigi hann ekki einu sinni skilið að horfa á styttu á Churchill, hvað þá að tylla sér í sæti hans.


Tengdar fréttir

Lögregla leitar mótmælandans á svifvængnum

Mótmælandi á svifvæng komst í gær framhjá lokunum lögreglu og sveif yfir Trump Turnberry hótelið í Skotlandi í gær. Þar hafði verið sett upp bannsvæði vegna heimsóknar Donald Trump, Bandaríkjaforseta og eiganda hótelsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×