Erlent

Útgöngutillögum Breta lýst sem óraunhæfum og líkt við köku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Boris Johnson er utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson er utanríkisráðherra Bretlands. Vísir/Getty
Háttsettir ráðamenn innan Evrópusambandsins (ESB) segja tillögur Breta í samningaviðræðum um skilmála útgöngu þeirra úr sambandinu vera óraunhæfar. Tillögunum hefur nú þegar verið hafnað með þeim skilaboðum að Bretar muni ekki geta breytt grunnstoðum sambandsins.

„Við lásum hvítbókina og það sem við lásum var „kaka“,“ segir heimildarmaður The Guardian sem starfar hjá ESB. Vísar hann þar til orða Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, um að Bretland gæti „átt kökuna og étið hana líka“ með því að ganga út úr ESB. Frá því að Bretar samþykktu útgöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur orðið „kaka“ verið notað í höfuðstöðvum ESB til að lýsa þeim kröfum Breta sem metnar eru óraunhæfar.

Sjá einnig: Samskipti „slæmu stráka Brexit“ við Rússa og Trump til skoðunar



Grunnstoðir ESB, fjórfrelsið svokallaða, byggja á frjálsu flæði vara, þjónustu, fjármuna og fólks innan aðildarríkjanna. Talið er að kröfur Breta, sem enn hafa ekki verið gerðar opinberar, feli í sér að Bretar vilji fullan aðgang að innri markaðnum en vilji hins vegar setja ýmis höft á flæði fólks. Slíkt verður ekki samþykkt af ESB.

„ESB er að ganga í gegnum erfiða tíma núna. Sem stendur er innri markaðurinn meðal þess sem heldur sambandinu saman. Ef þú veitir utanaðkomandi þriðja ríki fullan aðgang að honum án þess að það taki á sig aðrar skyldur er það upphafið að endinum,“ segir Jean-Claude Piris, fyrrverandi yfirmaður lagasviðs leiðtogaráðsins.

Á fundi leiðtoga ESB-ríkjanna, að Theresu May undanskilinni, var Brexit aðeins rætt í korter. Í yfirlýsingu sem var samþykkt var kallað eftir því að Bretar legðu fram „raunhæfar tillögur“.




Tengdar fréttir

Farage segist ekki hafa afvegaleitt markaðinn

Í aðdraganda Brexit-kosninga keyptu vogunarsjóðir sérstakar útgönguspár af breskum könnunarfyrirtækjum. Niðurstöður þeirra voru þvert á almennu spárnar. Sjóðirnir högnuðust um milljónir dollara á því að skortselja bresk pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×