Erlent

Minnast sex ára stúlku sem fannst látin í hótelrústum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leit að Aleshu MacPhail stóð yfir í tvo og hálfan tíma áður en hún fannst látin í hótelrústum.
Leit að Aleshu MacPhail stóð yfir í tvo og hálfan tíma áður en hún fannst látin í hótelrústum. Facebook/Angela King
Sex ára skosk stúlka, Alesha MacPhail, fannst látin í rústum gistiheimilis á eyjunni Bute við vesturströnd Skotlands í gærmorgun. Yfirkennari Chapelside-barnaskólans, sem MacPhail gekk í, minntist nemanda síns með hlýju í dag.

Fyrstu fregnir af hvarfi stúlkunnar bárust á mánudag þegar amma hennar birti færslu þess efnis á Facebook. Voru notendur samfélagsmiðilsins beðnir um að hjálpa til við leitina að MacPhail.

Lík hennar fannst tveimur og hálfum klukkutíma eftir að lögreglu á Bute var tilkynnt um hvarfið. Eins og áður sagði er fundarstaðurinn gamlar hótelrústir í skóglendi í um tuttugu mínútna fjarlægð frá húsi föðurforeldra hennar, þar sem hún dvaldi ásamt föður sínum.



Samkvæmt frétt BBC rannsakar lögregla andlát MacPhail sem „óútskýrt atvik“ og biðlar til allra sem kynnu að búa yfir upplýsingum um málið að gefa sig fram. Fjölmennur hópur lögreglumanna er staddur á eyjunni við rannsókn málsins.

MacPhail gekk í Chapelside-barnaskólann í skoska bænum Airdrie en hún virðist hafa búið í bænum ásamt móður sinni. Yfirkennari skólans, Wendie Davie, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem minntist stúlkunnar með mikilli hlýju.

„Hún elskaði að vera í skólanum og þótti gaman að lesa og skrifa. Hún var mikill fullkomnunarsinni þegar kom að handskrift og var mjög stolt af verkum sínum.“

Þá sagði Davie að MacPhail hefði verið vinaleg og tillitsöm. Hún hafi átt marga félaga í skólanum, enda brosmild og hamingjusöm ung stúlka.

Íbúar á eyjunni Bute hafa einnig vottað fjölskyldu MacPhail samúð sína. Margir hafa skilið eftir blóm og skilaboð við heimili fjölskyldunnar til minningar um stúlkuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×