Erlent

Sérstaki rannsakandinn bætir við saksóknurum

Kjartan Kjartansson skrifar
Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI, stýrir rannsókninni á meintu samráði framboðs Trump við Rússa árið 2016.
Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI, stýrir rannsókninni á meintu samráði framboðs Trump við Rússa árið 2016. Vísir/Getty
Saksóknarar frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu og saksóknaraembættum hafa verið fengnir til þess að leggja rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda ráðuneytisins á meintu samráði forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa, lið að undanförnu. Það er talið geta verið merki um að Mueller ætli að fela hluta rannsóknarinnar í hendur saksóknara á einstökum stöðum.

Bloomberg-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að Mueller hafi einnig leitað liðsinnis fleiri FBI-fulltrúa. Hann hefur þegar vísað einum anga rannsóknarinnar, mögulegum fjársvikum Michael Cohen, persónulegs lögmanns Trump, til saksóknara í New York.

Saksóknarar frá New York, Alexandríu í Virginíuríki, Pittsburgh og víðar eru sagðir hafa verið fengnir til að starfa við rannsóknina. Það gæti verið merki um að Mueller ætli að láta þeim eftir að taka fyrir einstök mál sem hafa komið upp við rannsóknina.

Tuttugu ákærur hafa þegar verið gefnar út í tengslum við rannsókn Mueller sem nær einnig til þess hvort að Trump hafi sem forseti reynt að hindra framgang réttvísinnar. Fimm einstaklingar hafa þegar játað sig seka um brot, flestir um að hafa logið að alríkislögreglunni.

Stærsta málið fram að þessu er líklega ákærur Mueller og saksóknara í Virginíu gegn Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump. Búist er við því að þær verði teknar fyrir síðar á þessu ári.

Trump forseti hefur ítrekað fullyrt að ekkert samráð hafi átt sér stað við Rússa. Hann hefur kallað rannsóknina „nornaveiðar“ sem eigi sér pólitískar rætur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×