Enski boltinn

Aron Einar: Þetta var svo sannarlega biðarinnar virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Getty

Aron Einar Gunnarsson skrifaði undir nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Cardiff City í dag og verður því með velska félaginu í endurkomunni í ensku úrvalsdeildinni.

Aron Einar var í viðtali á heimasíðu Cardiff City í dag. „Þetta hefur tekið sinn tíma en var svo sannarlega biðarinnar virði,“ sagði Aron Einar í viðtalinu við cardiffcityfc.co.uk.

„Ég vildi alltaf spila hérna áfram og ég sagði stjóranum það þótt að ég talaði ekki mikið um það í fjölmiðlum. Ég vildi bara skila mínu starfi inn á vellinum,“ sagði Aron Einar.  

Hann meiddist skömmu fyrir HM en tókst með ótrúlegum dugnaði og vilja að koma sér aftur í gang fyrir HM í Rússlandi þar sem hann spilaði alla þrjá leiki íslenska landsliðsins.

„Það var mikið og erfitt verkefni að koma til baka og ná að spila fyrir þjóð mína á HM og svo núna fyrir Cardiff. Eftir HM var forgangsatriði hjá mér að ganga frá þessum samningi og ég get ekki beðið eftir því að hitta félagana á ný,“ sagði Aron Einar. Hann er ánægður með sumarið hjá Cardiff. 

„Eigandinn og stjórinn eiga hrós skilið. Þeir hafa unnið gott starf í að styrkja liðið og ég sé að þetta hafi verið góð kaup. Þetta er allt að smella saman nú þegar leikmenn sem hafa verið í liðinu eru að ganga frá sínum málum líka,“ sagði Aron Einar sem hefur sterkar taugar til borgarinnar.

„Litli strákurinn minn fæddist í Cardiff og ég hef gengið í gegnum margt með þessum klúbbi og þessum stuðningsmönnum. Ég get ekki beðið eftir því að klæðast Cardiff-treyjunni á nýjan leik og vera fulltrú höfuðborgar Wales í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Aron.

Aron skrifaði undir samninginn á heimavelli sínum í Þorpinu í Akureyri, á Þórsvelli eins og sjá má að neðan.Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.