Erlent

Einangruð Bandaríki beittu neitunarvaldi í öryggisráðinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Haley greiddi ein atkvæði með tillögu sinni um að öryggisráðið skellti skuldinni á Hamas-samtökin.
Haley greiddi ein atkvæði með tillögu sinni um að öryggisráðið skellti skuldinni á Hamas-samtökin. Vísir/AP
Sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar sakaði aðildarríki þeirra um hlutdrægni gegn Ísrael eftir að ekkert ríki greiddi atkvæði með tillögu hans um að öryggisráðið kenndi Hamas-samtökunum um ofbeldi á Gasaströndinni. Áður hafði hann beitt neitunarvaldi til að fella ályktun þar sem dráp Ísraela á Palestínumönnum voru fordæmd.

Kúvætar lögðu fram tillögu að ályktun í öryggisráðinu í dag þar sem ofbeldi Ísraelshers gegn palestínskum mótmælendum á Gasaströndinni undanfarnar vikur var fordæmt. Að minnsta kosti 116 Palestínumenn hafa fallið fyrir hendi ísraelskra hermanna frá 30. mars, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Frakkland, Kína, Fílabeinsströndin, Kasakstan, Bólivía, Perú, Svíþjóð og Miðbaugs-Gínea greiddu atkvæði með tillögunni en Bretland, Holland, Pólland og Eþíópía sátu hjá. Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna, beitti neitunvaldi gegn tillögunni.

Haley lagði síðan fram eigin drög að ályktun þar sem Hamas var kennt um ofbeldi síðustu vikna og mánaða. Ekkert annað ríki greiddi atkvæði með þeirri tillögu. Þrjú ríki greiddu atkvæði gegn henni og ellefu sátu hjá.

„Það er nú algerlega ljóst að Sameinuðu þjóðirnar eru vonleysislega hlutdrægar gegn Ísrael,“ sagði Haley í yfirlýsingu þar sem hún fullyrti einnig að öryggisráðið væri tilbúið að kenna Ísrael um en ekki Hamas.


Tengdar fréttir

Viðkvæmt vopnahlé tekur gildi á Gaza ströndinni

Vopnahlé tók gildi á milli Ísraels og palestínskra skæruliða á Gaza ströndinni í morgun. Það mun vera afrakstur leynilegra viðræðna Hamas samtakanna við ísraelska stjórnarerindreka.

Sprengjum rignir yfir Ísrael og Gaza

Ráðherra njósnamála í Ísrael, sagði í úrvarpsviðtali í dag að ekki hefðu verið jafn miklar líkur á stríði síðan árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×