Íslenski boltinn

Þrjú skot á markið og að vera 39 prósent með boltann var nóg fyrir Keflavík

Tómas Þór Þórðarson skrifar
FH mistókst að komast á toppinn í Pepsi-deild karla í fótbolta á mánudagskvöldið þegar að liðið gerði jafntefli við nýliða Keflavíkur, 2-2.

Keflavík var 2-1 yfir eftir fyrri hálfleikinn en mark Atla Guðnasonar eftir frábæra sendingu Jónatans Inga Jónssonar tryggði lærisveinum Ólafs Kristjánssonar eitt stig.

Ef úrslitin hefðu fylgt tölfræðinni í leiknum hefði FH fengið öll þrjú stigin en þannig bara virkar ekki fótboltinn. Hann er ekki alltaf sanngjarn og barátta Keflavíkur tryggði liðinu stig á útivelli.

Samkvæmt tölfræðiskýrslu InStat úr leiknum var FH með boltann 61 prósent á móti 39 prósentum Keflavíkur og þá áttu gestirnir aðeins þrjú skot á markið. Tvö þeirra fóru framhjá Gunnari Nielsen og í netið.

FH-ingar áttu sjö skot á markið en aðeins eitt í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera 60 prósent með boltann. Þeir voru svo 62 prósent með boltann í seinni hálfleik og áttu sex markskot en Sindri Kristinn Ólafsson varði öll nema eitt.

FH-ingar kláruðu einnig 526 sendingar af 639 í leiknum eða 82 prósent sendinga sinna. Keflvíkingar gáfu aðeins 241 sendingu og voru með 69 prósent sendingahlutfall.

Það kemur ekkert á óvart að FH hafi verið svona mikið með boltann í leiknum því það er búið að vera mest með boltann af öllum liðum deildarinnar eða 57 prósent að meðaltali í hverjum leik.

Þrátt fyrir að vera svona mikið með boltann eru FH-ingar búnir að tapa stigum á heimavelli á móti Keflavík og FH og gera í heildina þrjú jafntefli í röð með markaleysinu á móti ÍBV fimmtu umferð deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×