Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - KA 3-1 | Þriðji sigur Vals í röð og meistararnir komnir á toppinn

Skúli Arnarson á Origo-vellinum að Hlíðarenda skrifar
vísir/vilhelm
Það var frekar kalt á Origo vellinum í dag þegar Valur sigraði KA með þremur mörkum gegn einu í áttundu umferð Pepsi deildar karla. Með sigrinum settust Valur á topp deildarinnar með fimmtán stig en KA eru eftir leiki dagsins í tíunda sæti með átta stig.

Leikurinn byrjaði með látum en strax á fjórðu mínútu leiksins komst Guðjón Pétur Lýðsson allt í einu einn inn fyrir vörn KA manna og þurfti ekki annað en að renna honum til hliðar á Kristinn Frey Sigurðsson sem skoraði fyrsta mark leiksins.

Strax í kjölfarið af markinu fóru KA menn upp völlinn og fengu hornspyrnu. Hornspyrnuna tók Hallgrímur Mar og setti boltann beint á höfuðið á Bjarna Mark sem skallaði boltann í slánna af stuttu færi og Valsmenn heppnir að halda forystunni.

Eftir þessar fyrstu mínútur sloknaði aðeins á leiknum og mjög lítið markvert gerðist fram að 35.mínútu. Þá fengu KA menn horn sem Bjarni Mark tók. Hornspyrnu hans skallaði Aleksandar Trninic í markið af stuttu færi og KA menn búnir að jafna leikinn.

Þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleiknum fékk Guðjón Pétur Lýðsson boltann fyrir utan teig KA manna og lét vaða. Skotið var fast og alveg meðfram jörðinni í vinstra hornið og endaði í netinu og Valur aftur komnir með forystu, rétt fyrir hálfleik. Martinez, markvörður KA, hefði mögulega mátt gera betur en markið þó gífurlega fallegt.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en á 76.mín fékk Patrick Pedersen dauðafæri þegar hann slapp einn í gegn og ætlaði að vippa boltanum yfir Martinez. Martinez náði að setja hendina í boltann og sluppu KA menn með skrekkinn en Pedersen átti að gera talsvert betur.

Á lokamínútum leiksins lagðist Valsliðið langt niður á völlinn og sóttu KA menn stanslaust síðustu mínúturnar og fengu nokkrum sinnum góða sénsa til að jafna en varnarmenn Vals náðu oftar en ekki að fleygja sér fyrir boltann.

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma komst Ólafur Karl Finsen í gegnum vörn KA og kláraði færið og jafnframt leikinn fyrir Val.

Lokatölur leiksins því 3-1 og Valsmenn nokkuð heppnir að ná í öll þrjú stigin í dag.

 

Hversvegna vann Valur?

Valur skoruðu mörk á mjög mikilvægum tímapunktum í leiknum. Þeir skoruðu strax í upphafi leiks, rétt fyrir hálfleik og svo alveg í lok leiksins. Fyrir utan þessi mörk voru Valsmenn ekki að spila neinn glimrandi bolta.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er auðvelt að benda á það að Guðjón Pétur Lýðsson hafi staðið upp úr í dag ef horft er á það að hann skoraði eitt mark og lagði upp annað. Hann hefur hinsvegar oft spilað betri leiki en hann missti boltann nokkrum sinnum fyrir Val og átti nokkrar slakar sendingar.

Þrátt fyrir það dugði stoðsendingin og markið í dag til þess að Guðjón var maður leiksins í dag. Arnar Sveinn Geirsson átti einnig flottan leik í bakverðinum fyrir Val í dag og var mjög virkur upp og niður kantinn. 

Hvað gekk illa?

KA mönnum gekk illa að ná að komast í alvöru færi. Þeir fengu mjög mörg hálffæri en náðu ekki alveg að spila vörn Vals í sundur og komast í dauðafæri. Þeir spiluðu hinsvegar ágætlega í dag og eru líklega nokkuð svekktir að fá ekkert út úr leiknum í dag.

Hvað gerist næst?

Valur fer suður til Vestmannaeyja og spilar við lið ÍBV sem situr í ellefta sæti Pepsi deildarinnar. ÍBV náðu þó góðum sigri gegn KR á heimavelli í síðustu umferð og ljóst að Valur á erfitt verkefni fyrir höndum. KA fá Stjörnuna í heimsókn til Akureyrar.

KA menn hafa verið að spila ágætis fótbolta í síðustu umferðum en stigasöfnuninn verður að fara að hefjast fyrir alvöru ætli þeir sér að gera eitthvað af viti í deildinni í sumar.

 

Tufa: Úrslitin algjörlega ósanngjörn

Tufa, þjálfari KA, var ánægður með spilamennskuna í dag og mjög svekktur að fá ekkert út úr leiknum í dag. 

„Ég er mjög svekktur að tapa leiknum í dag. Mér fannst við spila ótrúlega vel í dag og úrslitin eru algjörlega ósanngjörn miðað við hvernig leikurinn spilast. Mér fannst við halda boltanum vel, skapa nægilega mörg færi og baráttan var alveg upp á tíu. Við gerum reyndar tvö mistök í þeirra mörkum en eins og ég segi þá var liðið sem var að spila betur í dag KA.”

Tufa fannst KA stjórna leiknum nánast allan leikinn í dag.

„Eftir að valur skora fyrsta markið tökum við yfir leikinn, sköpum færi, jöfnum leikinn og það var algjör óþarfi að fá á okkur þetta mark í lok fyrri hálfleiks og fara undir inn í hálfleikinn í hálfleik sem var algjörlega stjórnað af okkur. Í Seinni hálfleik gefum við allt í þetta, fáum dauðafæri til að jafna leikinn og svo skora þeir mark í lokin sem að skiptir í rauninni engu máli þegar upp er staðið.“

Eftir góðan sigur á Víking Reykjavík í síðustu umferð er svekkjandi fyrir KA að ná engu úr leiknum í dag þrátt fyrir góða spilamennsku.

„Við megum ekki gleyma því að við vorum að spila gegn besta liðið landsins á þeirra heimavelli þar sem þeir vinna nánast alla leiki.“

Tufa fékk gult spjald í lok leiks fyrir að tala við aðstoðardómarann. Hann vildi ekki meina að hann hefði verðskuldað það.

„Ég spyr hann bara afhverju hann bætti bara við fimm mínútum en kannski er bara kominn tími á að maður má ekki spyrja neinn að neinu.“

 

Guðjón Pétur Lýðsson: Æðislegt að sjá boltann í netinu.

„Ég er bara gífurlega ánægður að fá þrjú stig á móti mjög góðu KA liði. Þeir unnu sannfærandi í síðasta leik og við vissum að þeir væri fullir af sjálfstrausti. Það var gífurlega mikilvægt að byrja vel og ná fyrsta markinu,“ sagði maður leiksins, Guðjón Pétur Lýðsson, strax eftir leik.

Guðjón var ánægður með spilamennsku liðsins í dag.

„Við erum að spila við mjög sterkt lið og á löngum köflum vorum við að spila vel og ná að opna þá og fá færi. Að sjálfsögðu er ég ánægður með spilamennskuna þó að það hafi legið soldið á okkur en mér fannst þeir ekki skapa mörg færi.“

 

„Það var æðislegt að sjá boltann í netinu. Það var á frábærum tíma, rétt fyrir hálfleik og það var búið að liggja aðeins á okkur,“ sagði Guðjón um markið sem hann skoraði í lok fyrri hálfleiks.  

 

Ólafur Jóhannesson: Guðjón getur mikið meira en þetta

„Ég er fyrst og fremst bara ánægður með stigin. Það er erfitt að spila við KA liðið, það er líkamlega sterkt og þeir eru grimmir þannig að þetta voru bara þrjú góð stig,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, að leik loknum.

Ólafur var ánægður með spilamennsku liðsins á stórum köflum í leiknum.  

„Heilt yfir er ég ánægður með spilamennskuna. Það lá svolítið á okkur, sérstaklega seinni partinn, en við gáfum okkur alla í það, börðumst og gerðum það sem við ætluðum að gera sem var að vinna leikinn.”

Spurður hvort að Vals liðið væri að spila betur núna en í upphafi tímabils þegar úrslitin voru ekki nægilega góð svaraði Ólafur að auðvitað væri hún það.

„Auðvitað erum við að spila betur. Ég held að menn séu að átta sig á stöðunni sem við erum í og ég held að það hafi hjálpað okkur.“

Guðjón Pétur Lýðsson fékk loksins traustið í dag og skoraði eitt mark og lagði upp eitt. Ólafur veit samt sem áður að Guðjón getur spilað betur.

„Ég er ánægður með markið hans og með stoðsendinguna en hann getur mikið meira en þetta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira