Erlent

Blaðamaðurinn sem var „myrtur“ enn á lífi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Arkady Babchenko er á lífi.
Arkady Babchenko er á lífi. vísir/ap
Rússneski blaðamaðurinn Arkady Babchenko sem fjölmiðlar um allan heim hafa greint frá að hafi verið myrtur í Kænugarði í Úkraínu í gær er á lífi og í raun við hestaheilsu.

Babchenko birtist á blaðamannafundi hjá úkraínsku lögreglunni í dag en forsætisráðherra Úkraínu hafði sagt að Rússar hefðu fyrirskipað morðið.

Fjöldi blaðamanna var mættur á fundinn til þess að fá fregnir af framgangi rannsóknar lögreglu á morðinu, en Babchenko hefur verið gagnrýninn á Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, og ríkisstjórn hans.

Ekki var hins vegar um eiginlegt morð að ræða heldur segir Vasyl Hrytsak, yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar, að morðið hafi verið sett á svið í tengslum við rannsókn lögregluyfirvalda á morðhótunum sem Babchenko hefur fengið. Meira en mánuður hafði farið í að skipuleggja sviðsetningu morðsins og hefur einn verið handtekinn í tengslum við aðgerðina.

Kona Babchenko hafði lýst því að maður hennar hefði verið skotinn í bakið þegar þau yfirgáfu íbúðina sína í Kænugarði, blaðamaðurinn hafði ekki sagt konu sinni að um setja ætti morðið á svið.

„Ég bið konuna mína innilegrar afsökunar,“ segir Babchenko.

Babchenko flúði frá Rússlandi í fyrra eftir að hafa fengið hótanir í kjölfar færslu sem hann setti á samfélagmiðla. Blaðamenn og aðrir sem gagnrýnt hafa rússnesk yfirvöld hafa á undanförnum árum verið myrtir í Kænugarði en morðin eru óupplýst.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×