Erlent

Engar sannanir fyrir „njósnara“ í röðum Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Trey Gowdy.
Trey Gowdy. Vísir/AP

Þingmaðurinn Trey Gowdy, formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og háttsettur Repúblikani, segir ekkert til í því að að Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hafi komið „njósnara“ fyrir meðal starfsmanna framboðs Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Trump sjálfur hefur ítrekað haldið því fram undanfarið og segir FBI hafa gert það til að reyna að hjálpa Hillary Clinton, mótframbjóðanda hans, að vinna forsetakosningarnar 2016.

Gowdy var meðal þeirra sem starfsmenn FBI og dómsmálaráðuneytisins skýrðu málið fyrir í síðustu viku.

Trump hefur básúnað undanfarna daga og vikur um að „njósnað“ hafi verið um forsetaframboð hans af pólitískum ástæðum. Forsetinn hefur kallað málið „njósnahneykslið“. Hvorki hann né Hvíta húsið hafa lagt fram nokkur gögn eða sannanir um að þær ásakanir eigi við rök að styðjast.

Sjá einnig: Trump og bandamenn magna upp „njósnahneyksli“

Engu að síður samþykktu alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið að veita þingmönnum upplýsingar um heimildarmann sem FBI notaði þegar hún rannsakaði fyrst vísbendingar um samskipti starfsmanna Trump-framboðsins við Rússa árið 2016 í síðustu viku.

Fram hefur komið að eftir að FBI fékk upplýsingar um samskiptin leituðu rannsakendurnir til bandarísks fræðimanns með tengsl við Repúblikanaflokkinn. Hann ræddi við að minnsta kosti þrjá starfsmenn framboðsins og reyndi að afla upplýsinga um hvers eðlis samskiptin við Rússa hefðu verið.

Heimildarmaðurinn starfaði hins vegar aldrei innan framboðsins eins og Trump og stuðningsmenn hans hafa ýjað að. Bandarískir embættismenn segja að ekkert hafi verið óeðlilegt við störf heimildarmannsins.

Gowdy sagði í dag að hann væri fullviss um að starfsmenn FBI hefðu „gert það eina í stöðunni sem allir Bandaríkjamenn vildu að þeir gerðu þegar þeir fengu þær upplýsingar sem þeir fengu og það kemur Donald Trump ekkert við“

Þá sagði hann að lögregluembætti notuðust oft og títt við uppljóstrara.

Eftir áðurnefndan fund þingmanna og starfsmanna Dómsmálaráðuneytisins og FBI hafa leiðtogar Repúblikanaflokksins grafið undan ásökunum forsetans. Gowdy sagði þá alla vera sammála.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.