Erlent

Kallaði eftir árásum á Georg prins

Samúel Karl Ólason skrifar
Teikning af Rashid, Vilhjálmur bretaprins og sonur hans Georg.
Teikning af Rashid, Vilhjálmur bretaprins og sonur hans Georg. Vísir/AP
Breti sem lýst hafði yfir hollustu við Íslamska ríkið hefur játað ýmis hryðjuverkabrot og þar á meðal að hafa kallað eftir árásum á hinn fjögurra ára gamla Georg prins. Hinn 32 ára gamli Husnain Rashid notaðist við samskiptaforritið Telegram til að fagna vel heppnuðum hryðjuverkaárásum í Bretlandi og hvetja til fleiri svokallaðra „Lone wolf“ árása.

Þar að auki veitti hann ráð um notkun sprengja og hnífa og ætlaði hann sér að ferðast til Sýrlands og ganga til liðs við ISIS.

Rashid hafði í fyrstu lýst yfir sakleysi sínu en hefur skipt um skoðun. Réttarhöldin yfir honum hófust þann 23. maí en Rashid játaði brot sín vegna óhyggjandi sannana gegn honum, samkvæmt tilkynningu frá ríkissaksóknara Bretlands.



Meðal þess sem Rashid ráðlagði lesendum sínum að gera var að notast við eitur, bíla, og ýmis vopn. Hann stakk þar að auki upp á því að eitri yrði sprautað í ís í verslunum.

Saksóknarinn Sue Hemming segir Rashid vera öfgamann sem hafi ekki einungis hvatt aðra til að gera árásir heldur hafi hann einnig ætlað sér að ferðast til Tyrklands og þaðan til Sýrlands og ganga til liðs við ISIS.

„Hann reyndi að halda því fram að hann hefði ekki gert neitt ólöglegt en óhyggjandi sönnunargögn gegn honum fengu hann til að játa brot sín.“

Meðal þess sem Rashid birti á Telegram var mynd af hinum fjögurra ára gamla Georg og heimilisfang skóla hans með textanum: „Jafnvel konungsfjölskyldan verður ekki látin í friði“.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×