Erlent

Einn valdamesti maður Norður-Kóreu á leið til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Yong-chol ásamt Ivönku Trump á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu.
Kim Yong-chol ásamt Ivönku Trump á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu. Vísir/EPA

Hershöfðinginn Kim Yong-chol verður hæst setti embættismaður Norður-Kóreu sem ferðast til Bandaríkjanna í 18 ár á morgun þegar hann mætir á fund Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Kim er fyrrverandi njósnari og einn af helstu ráðgjöfum Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og spilar hann stórt hlutverk í skipulagningu mögulegs fundar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un.

Trump sagði frá komu Kim Yong-chol til Bandaríkjanna í dag og þakkaði yfirvöldum Norður-Kóreu fyrir góð viðbrögð við bréfi hans í síðustu viku, þar sem Trump lýsti því yfir að hann væri hættur við að hitta Kim Jong-un.

Fréttaveitan Yonhap frá Suður-Kóreu hefur heimildir fyrir því að Kim Yong-chol muni fljúga til Bandaríkjanna á morgun eftir fund með embættismönnum í Kína í dag. Síðasti háttsetti embættismaður Norður-Kóreu sem ferðaðist til Bandaríkjanna var Myong Rok sem hitti Bill Clinton í Hvíta húsinu árið 2000.

Kim Yong-chol er varaformaður landsnefndar Verkamannaflokks Norður-Kóreu. Reuters segja hann hafa spilað stórt hlutverk í viðræðum Norður-Kóreu við Bandaríkin og Suður-Kóreu. Hann hefur sinnt mörgum stöðum í einræðisríkinu og er sagður einn valdamesti maður þess.

Meðal annars var hann yfirmaður stærstu leyniþjónustu Norður-Kóreu og hefur hann verið einn af æðstu yfirmönnum leyniþjónusta ríkisins í nærri því þrjátíu ár. þar að auki var hann lífvörður Kim Jong-il, fyrrverandi einræðisherra Norður-Kóreu og föður Kim Jong-un.

Yfirvöld Suður-Kóreu hafa sakað Kim um að skipuleggja árásir á herskip Suður-Kóreu og eyju árið 201 og leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa tengt hann við tölvuárásina á Sony Pictures árið 2014.

Bandaríkin hafa tvisvar sinnum beitt hann viðskiptaþvingunum vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana Norður-Kóreu. Fyrst árið 2010 og síðan árið 2016. Það er því ljóst að hann hefur fengið undanþágu til að geta ferðast til Bandaríkjanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.