Erlent

Ólíðandi að Trump geti stöðvað evrópska samninga við Íran

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Utanríkisráðherrann var ómyrkur í máli í viðtali við franska dagblaðið Le Parisien
Utanríkisráðherrann var ómyrkur í máli í viðtali við franska dagblaðið Le Parisien Vísir/EPA
Utanríkisráðherra Frakklands segir algjörlega ótækt að evrópsk fyrirtæki þurfi að rifta milljarðasamningum vegna einhliða ákvarðana Bandaríkjastjórnar. Hann fordæmir þá ákvörðun Trump stjórnarinnar að virða ekki gerða samninga við Íran.

Öll fastaríki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, og Evrópusambandið, komu að samkomulaginu um kjarnorkuáætlun Írans sem var undirritað fyrir þremur árum. Samkvæmt því átti að aflétta viðskiptaþvingunum gegn því að Íranir sýndu og sönnuðu að þeir hygðust ekki þróa kjarnavopn.

Þrátt fyrir að allir hafi staðið við sitt til þessa ákvað Trump Bandaríkjaforseti að Bandaríkin myndu ekki lengur virða samkomulagið og viðskiptaþvingunum yrði aftur komið á.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, segir að þetta þýði að stórfyrirtæki frá Frakklandi og öðrum Evrópuríkjum verði að rifta mikilvægum samningum í Íran til að forðast refsiaðgerðir gegn útibúum sínum í Bandaríkjunum. Það sé ólíðandi að Bandaríkin hafi vald til að grípa inn í rekstur erlendra fyrirtækja með svo grófum hætti. Frakkar muni leita stuðnings annarra Evrópuríkja til að vernda hagsmuni þessara fyrirtækja.

Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa undirritað risavaxna samninga í Íran á síðustu misserum eru flugvélaframleiðandinn Airbus, olíurisinn Total og bílaframleiðendurnir Renault og Peugeot. Fyrirtækin hafa frest fram til nóvember til að hætta öllum viðskiptum við Íran, annars verður þeim refsað með þvingunaraðgerðum gegn starfsstöðvum þeirra í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×