Erlent

Forsætisráðherra Ísraels þarf nú aðeins eitt atkvæði til að lýsa yfir stríði

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Netanyahu hlaut lof Donalds Trump Bandaríkjaforseta fyrir ræðu sína um þá hættu sem stafi af Íran
Netanyahu hlaut lof Donalds Trump Bandaríkjaforseta fyrir ræðu sína um þá hættu sem stafi af Íran
Ísraelska þingið hefur samþykkt ný lög sem gera forsætisráðherra landsins kleift að lýsa yfir stríði svo lengi sem hann fær samþykki varnarmálaráðherra síns. Um er að ræða breytingu á fyrri lögum sem gerðu þá kröfu að stríðsyfirlýsingar væru lagðar fyrir alla ríkisstjórnina.

Breytingin var samþykkt með 62 atkvæðum gegn 41, rétt áður en Netanyahu forsætiráðherra steig á stokk til að saka stjórnvöld í Íran um stórfelldar blekkingar og kjarnavopnaframleiðslu. Ísraelsmenn eru sjálfir almennt taldir búa yfir leynilegum kjarnavopnum og hafa ekki neitað því með óyggjandi hætti.

Fyrrnefnd lagabreyting vekur meðal annars athygli í ljósi þess að ákveðin hefð er fyrir því að forsætisráðherrar taki sjálfir yfir stjórn varnarmála þegar hvað mestur ófriður er fyrir botni Miðjarðarhafs. David Ben-Gurion, Menachem Begin, Yitzhak Rabin, Ehud Barak og Shimon Peres hafa til að mynda allir verið forsætisráðherra og varnarmálaráðherra á sama tíma. Gerist það aftur myndi valdið til að lýsa yfir stríði vera á hendi aðeins eins manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×