Erlent

Vanilla orðin dýrari en silfur og ísframleiðendur í vanda

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Það getur tekið nokkur ár áður en uppskeran í Madagaskar kemst í samt horf
Það getur tekið nokkur ár áður en uppskeran í Madagaskar kemst í samt horf Jonathan Talbot, World Resources Institute
Rjómaísframleiðendur eru í miklum vanda þar sem heimsmarkaðsverð á vanillu hefur rokið upp úr öllu valdi. Bragðefnið kostar nú meira en silfur og áhugamenn um vanilluís segjast finna það á bragðinu.

Vanilla er viðkvæm uppskera og 80% af heimsframleiðslunni kemur frá Madagaskar þar sem mikið óveður lagði ræktarsvæði í rúst í febrúar. Verðið hefur ekki enn jafnað sig þar sem við bætist að eftirspurn er óvenjusterk og plönturnar geta verið mörg ár að ná sér. Kílóið kostar nú meira en sextíu þúsund krónur og fer hækkandi. Fyrir utan rjómaís er vanilla notuð sem bragðefni í ýmiskonar matvöru og lyktarefni í snyrtivöru.

Gerviefnið vanillin, sem líkir eftir vanillubragði, er talið vera notað í auknum mæli til að drýgja náttúrulega vanillu. Stórir ísframleiðendur vilja hins vegar ekki staðfesta að þeir hafi breytt uppskriftum til að spara vanilluna. Þrátt fyrir það er þrálátur orðrómur meðal ísunnenda á netinu um að vinsælar tegundir af vanilluís bragðist öðruvísi en þær gerðu fyrir nokkrum vikum. Talsmaður ísframleiðandans Häagen-Dazs segir að uppskriftin hafi tekið breytingum en vill ekki segja með hvaða hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×