Innlent

Ellen ætlar að sniðganga Hörpu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ellen Kristjánsdóttir mun ekki stíga fæti á svið í Hörpu fyrr en laun þjónustufulltrúa hafa verið leiðrétt.
Ellen Kristjánsdóttir mun ekki stíga fæti á svið í Hörpu fyrr en laun þjónustufulltrúa hafa verið leiðrétt.
Söngkonan Ellen Kristjánsdóttir er ein fjölmargra sem lýsa yfir stuðningi við þjónustufulltrúana í Hörpu, sem sögðu upp störfum í gær eftir fund með forstjóranum Svandhildi Konráðsdóttur

Boðað var til fundarins af forstjóranum eftir að fréttir bárust af því að einn þjónustufulltrúi í húsinu sagði upp störfum þar sem honum ofbuðu fregnir af launahækkun forstjórans, ekki síst í ljósi þess að þjónustufulltrúum var gert að taka á sig launalækkun um síðustu áramót.

Sjá einnig: Tuttugu þjónustu­full­trúar Hörpu sögðu upp störfum eftir fund með for­stjóra

Eftir fundinn sögðu þeir upp störfum, eins og Vísir greindi frá í gærkvöldi og hafa netverjar keppst við að lýsa yfir stuðningi við þjónustufulltrúana. Þeirra á meðal er fyrrnefnd Ellen, sem skrifaði á Facebook í nótt að hún muni ekki syngja aftur í Hörpu fyrr en „leiðrétting hefur farið fram.“

Meðal annarra sem styðja baráttuna eru Lára Hanna Einarsdóttir, stjórnarmaður Ríkisútvarpsins, Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins og Þór Saari, fyrrverandi alþingismaður. Þá hefur Greipur Gíslason, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hefur aðsetur í Hörpu, sömuleiðis vakið athygli á hlutverki þjónustufulltrúanna.

Í samtali við RÚV segist Svanhildur ekki ætla að tjá sig frekar um málið fyrr en hún er búin að ræða við stjórnarformann Hörpu og aðra starfsmenn fyrir hádegi.


Tengdar fréttir

Starfsmönnum Hörpu var gert að samþykkja launalækkun

Reiði er meðal starfsmanna Hörpu vegna launahækkunar forstjóra í fyrra. Þjónustufulltrúar þurftu að taka á sig verulega launalækkun í lok síðasta árs vegna slæmrar stöðu félagsins. Leituðu til lögfræðinga VR vegna þessa. Þjónustufulltrúinn Örvar Blær Guðmundsson sagði upp í gær eftir að hafa lesið frétt Fréttablaðsins.

Stjórn Hörpu svarar fyrir sig

Segja laun forstjóra Hörpu ekki hafa hækkað um tuttugu prósent á tveimur mánuðum heldur 16,8 prósent á fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×