Erlent

Tónlistarmaðurinn Avicii látinn

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Tim Bergling var 28 ára gamall.
Tim Bergling var 28 ára gamall. Vísir/AFP
Sænski tónlistarframleiðandinn og plötusnúðurinn Avicii fannst látinn í dag í Muscat í Oman. Avicii, eða Tim Bergling, var 28 ára gamall. Dagens Nyheter greinir frá.

Avicii var frumkvöðull þegar kom að nútíma danstónlist en hann var margverðlaunaður fyrir tónlist sína. Til að mynda hafði hann unnið til tveggja MTV tónlistarverðlauna, Billboard verðlauna og þá hafði hann tvisvar verið tilnefndur til Grammy verðlauna. Hann var nýlega tilnefndur til Billboard verðlauna fyrir plötuna Avicii (01).

Hann gaf út tvær breiðskífur, True árið 2013 og Stories árið 2015, og slógu þær báðar rækilega í gegn. 

Fjölmiðlafulltrúi hans, Diana Baron, segir í yfirlýsingu að hann hafi fundist látinn í Muscat í Oman síðdegis í dag. Þá segir hún að fjölskyldan sé harmi slegin og biður alla um að virða friðhelgi einkalífs þeirra á þessum erfiðu tímum.

Avicii hætti að koma fram á tónleikum árið 2016 sökum veikinda sem mátti rekja til mikillar drykkju. Hann hélt þó áfram að semja tónlist.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um dánarorsök.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.