Enski boltinn

Mourinho: Ekki ég sem seldi Salah heldur Chelsea

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ungur Salah við hlið Mourinho hjá Chelsea.
Ungur Salah við hlið Mourinho hjá Chelsea. vísir/afp
Eftir flugeldasýningu Mohamed Salah í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni í vetur hefur verið nokkuð mikið baunað á Jose Mourinho, stjóra Man. Utd, fyrir að hafa selt hann frá Chelsea á sínum tíma.

Salah fór frá Chelsea til Roma fyrir tveimur árum síðan. Hann hefur verið ótrúlegur í vetur og skorað 43 mörk í öllum keppnum.

„Fólk er að segja að ég hafi selt Salah en það er öfugt. Það var ég sem keypti Salah. Ég sagði Chelsea að kaupa leikmanninn,“ sagði Mourinho.

„Hann var ungur strákur hjá okkur og líkamlega ekki tilbúinn í átökin sem og andlega reyndar. Félagslega og menningarlega var hann týndur og það var allt mjög erfitt hjá honum. Það var svo Chelsea sem ákvað að selja hann. Ok? Það var ekki mín ákvörðun að selja leikmanninn.“

Salah var fyrst lánaður til Fiorentina og svo Roma. Chelsea seldi hann svo til Roma og Liverpool keypti hann síðasta sumar.

Mourinho segir að frammistaða Salah í vetur sé búin að vera svo rosaleg að hún hljóti að koma Salah sjálfum á óvart.

„Hann er frábær leikmaður sem hefur náð hámarki í sínum þroska. Hann er búinn að ganga í gegnum ýmislegt en hefur smollið fullkomlega inn í leikkerfi Liverpool.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×