Erlent

Yulia Skripal segir engan tala fyrir hennar hönd

Birgir Olgeirsson skrifar
Yulia Skripal.
Yulia Skripal. Vísir/AFP
Yulia Skripal segist ekki hafa náð nægum styrk til að veita viðtöl en segir engan tala fyrir hana né föður hennar. Þetta er haft eftir Yuliu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en Yulia er dóttir fyrrverandi njósnarans Sergei Skripal.

Hún og faðir hennar fundust meðvitundarlaus á bekk í Salisbury á Englandi í síðasta mánuði. Greint hefur verið frá því að taugaeitrið Novichok hefði fundust á hurðarhúni á heimili þeirra og hafa yfirvöld Bretlands og annarra ríkja sakað yfirvöld Rússlands um að gera árásina. Bretar segja taugaeitrið hafa verið framleitt í Rússlandi og segjast hafa heimildir fyrir því að undanfarin ár hafi yfirvöld Rússlands unnið að leiðum til að ráða fólk af dögum með þessu tiltekna taugaeitri.

Yulia var útskrifuð af sjúkrahúsi á mánudag en hún segir föður sinn enn þungt haldinn.

Lögreglan í Bretlandi sendi tilkynningu á fjölmiðla þar sem vitnað er í Yuliu. Hún segist hafna aðstoð frá rússneska sendiráðinu í Lundúnum enn sem komið er.

Hún hefur verið flutt á leynilegan stað en hún segist hafa aðgang að fjölskyldu sinni og vinum.

Á meðan hún var á sjúkrahúsi veitti frænka hennar, Viktoria Skripal, rússneskum fjölmiðlaveitunni Interfax viðtal þar sem hún sagði Yuliu hafa ætlað að sækja um pólitískt hæli, en vissi þó ekki hjá hvaða landi.

Yulia segir þó í yfirlýsingunni að enginn tali fyrir hennar hönd né föður hennar.

„Ég hef ekki náð nægum styrk til að veita viðtal, en vonast til að geta það einn daginn. Þangað til vil ég ítreka að enginn talar fyrir okkar hönd. Ég vil þakka frænku minni Viktoriu fyrir að hugsa til okkar, en ég bið hana um að heimsækja mig ekki eða að reyna að hafa samband við mig að svo stöddu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×