Enski boltinn

Harry Kane sárnaði meðferðin hjá nettröllunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Tottenham maðurinn Harry Kane hefur unnið gullskó ensku úrvalsdeildarinnar tvö tímabil í röð en nú stendur honum mikil ógn af Egyptanum Mohammad Salah hjá Liverpool. Kane fékk markanefndina til að hjálpa sér í baráttunni og það sló ekki alveg í gegn á stóra internetinu.

Harry Kane vildi fá mark skráð á sig í leiknum og á móti Stoke City um síðustu helgi og Tottenham áfrýjaði fyrstu ákvörðun markanefndinnar sem tók málið aftur fyrir. Kane fékk markið skráð á sig á endanum.

Það var ekki hægt að sjá greinilega snertingu á sjónvarpsupptökunum en Harry Kane sagðist hafa komið við boltann.





Kane sannfærði markanefndina og nú munar aðeins fjórum mörkum á honum og Mohammad Salah hjá Liverpool í baráttunni um gullskó ensku úrvalsdeildarinnar.

Kane vann hinsvegar ekki netið með þessu máli og hafa nettröllin heldur betur tekið enska landsliðsframherjann í gegn á síðustu sólarhringum.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, tjáði sig um málið og meðferðina sem Harry Kane fékk á samfélagsmiðlunum.

„Auðvitað hélt hann að þetta yrði aldrei að svona stóru máli. Hann var sannfærður um að hann hafi komið við boltann. Það er eðlilegt að hann hafi því verið vonsvikinn með að fá markið ekki skráð. Stuðningsmenn Tottenham munu standa með Harry Kane en stuðningmenn hinna liðanna vilja örugglega drepa hann. Fólk hefur sínar skoðanir og það er bara eðlilegt,“ sagði Mauricio Pochettino.

„Hann er vonsvikinn af því að hann ætlaði aldrei að búa til svona mál. Stundum verður lítið atriði alltaf stærra og stærra og það ræður enginn við það. Það gerðist hér og hann mun læra af þessu,“ sagði Pochettino sem segir að Harry Kane hafi vissulega sárnað meðferðin sem hann fékk á netinu.

„Harry er mjög heiðarleg persóna og hann er ekki að fara ljúga um að hafa komið við boltann. Við erum búin að búa til stórmál úr því sem á ekki að vera neitt mál,“ sagði Pochettino.

Harry Kane tók mark af liðsfélaga sínum Christian Eriksen en Mauricio Pochettino segir að það sé allt í góðu á milli Kane og danska landsliðsmannsins.

Pochettino gerði líka lítið úr þeim skoðunum að þetta myndi bara gera Mohammad Salah enn einbeittari í því að vinna gullskóinn og myndi því að endanum hjálpa Egyptanum. „Ég trúi því ekki að Salah þurfi svona mál til að fá innblástur. Ekki láta mig fara að hlæja,“ sagði Pochettino.

Staðan er nú 29-25 í baráttu Mohammad Salah og Harry Kane. Tottenham mætir Manchester City um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×