Erlent

Skipaiðnaðurinn þarf að draga úr losun um helming fyrir miðja öldina

Kjartan Kjartansson skrifar
Skipafloti heimsins losar svipað mikið af gróðurhúsalofttegundum og Þýskaland.
Skipafloti heimsins losar svipað mikið af gróðurhúsalofttegundum og Þýskaland. Vísir/AFP
Aðildarríki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar náðu samkomulagi um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050 í dag. Andstaða ríkja eins og Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu er sögð hafa komið í veg fyrir að metnaðarfyllri markmið hafi verið samþykkt.

Skipaiðaðurinn hefur lengi dregið lappirnar í að gangast undir takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum á jörðinni. Þannig var ekki fjallað um losun frá skipum í Parísarsamkomulaginu árið 2015. Engu að síður koma um 2,2% af heildarlosun manna frá skipum, að því er segir í frétt Reuters. Það jafnast á við alla losun Þýskalands.

Alþjóðasiglingamálastofnun hefur þegar samþykkt bindandi reglur um sparneytni nýrra skipa sem er ætlað að draga úr losuninni. Endanleg loftslagsáætlun stofnunarinnar á hins vegar ekki að liggja fyrir fyrr en árið 2023.

Samkomulagið um að byrja að draga úr losun nú þegar er ekki bindandi fyrir aðildarríkin. Markmiðið er að draga úr losun um 50% miðað við árið 2008 fyrir árið 2050.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×