Erlent

Losun Bretlands hefur ekki verið minni frá lokum 19. aldar

Kjartan Kjartansson skrifar
Bresk stjórnvöld stefna að því að loka kolaorkaverum fyrir árið 2025. Kolanotkun hefur dregist verulega saman síðustu árin.
Bresk stjórnvöld stefna að því að loka kolaorkaverum fyrir árið 2025. Kolanotkun hefur dregist verulega saman síðustu árin. Vísir/AFP
Verulegur samdráttur í notkun kola er aðalástæða þess að losun gróðurhúsalofttegunda í Bretlandi hefur ekki verið minni frá árinu 1890. Alls dróst losun landsins saman um 2,6% í fyrra miðað við árið áður.

Kolanotkun dróst saman um 19% í fyrra samkvæmt greiningu Carbon Brief á opinberum gögnum viðskipta-, orku- og iðnaðaráætlunarráðuneytisins. Koltvísýringslosun Bretlands er nú 38% minni en hún var árið 1990 og hefur hún ekki verið minni frá því á síðasta áratug 19. aldarinnar.

Olíunotkun jókst lítillega en minna en samdrátturinn í losun frá öðru jarðefnaeldsneyti. Losun Breta hefur dregist saman á hverju ári frá árinu 2012.

Breska ríkisstjórnin hefur lofað því að loka öllum kolaorkuverum fyrir árið 2025. Aðeins 5,3% af heildarorkuneyslu Breta kemur nú frá kolum. Hlutfallið var 22% árið 1995. Notkun kola hefur dregist saman á hverju ári frá árinu 2012.

Í sambærilegri greiningu Carbon Brief fyrir árið 2016 kom fram að hrun í eftirspurn eftir kolum í Bretlandi væri til komið vegna ódýrara jarðgass, vaxtar í endurnýjanlegum orkugjöfum og minnkandi eftirspurnar eftir orku.

Carbon Brief er loftslagsvefsíða sem fjöldi loftslagsvísindamanna tekur þátt í að ritstýra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×