Erlent

Sautján fallnir og 1.400 særðir eftir átök við Gaza-ströndina

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Yfirvöld í Egyptalandi og Jórdaníu fordæma framgöngu Ísraela vegna yfirstandandi mótmæla Palestínumanna.
Yfirvöld í Egyptalandi og Jórdaníu fordæma framgöngu Ísraela vegna yfirstandandi mótmæla Palestínumanna. Vísir/Getty
Sautján hafa fallið í átökum við Gaza-ströndina síðan á föstudag og yfir fjórtán hundruð eru særðir. Yfirvöld í Egyptalandi og Jórdaníu fordæma framgöngu Ísraela vegna yfirstandandi mótmæla Palestínumanna.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytum Egyptalands og Jórdaníu er Ísraelsher sakaður um að beita árásum og ofbeldi gegn Palestínumönnum sem stundi friðsamleg mótmæli. Þá dragi átökin sem nú standa yfir úr líkunum á því að friðarumleitanir í langvarandi deilu Ísraela og Palestínumanna beri árangur, en Palestínumenn hafa boðað sex vikna mótmæli gegn landtökuhernaði Ísraela.

Átökin við Gaza-ströndina hafa jafnframt valdið kergju milli Ísraela og Tyrkja en Tyyip Erdogan Tyrklandsforseti sakaði í gær Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, um hryðjuverk þegar hann gagnrýndi framgöngu Ísraelshers gagnvart palestínskum mótmælendum við Gaza.

Ísraelar hafa vísað því á bug að dauðsföllin 17 megi rekja til ólögmætrar framgöngu Ísraelshers en Nethanyahu sagði á Twitter í gær að Ísraelsher muni ekki sitja undir ásökunum um slíkt af hálfu ríkja sem sjálf hafi svo árum skipti varpað sprengjum á eigin borgara, og vísaði hann þar til Tyrklands.

Sameinuðu þjóðirnar hafa farið fram á óháða rannsókn á dauðsföllunum, sem rekja má til mestu átakanna sem voru á föstudag, en því hefur varnarmálaráðherra Ísraels hafnað.
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×