Enski boltinn

Birkir maður leiksins í gær │ „Var mark Ronaldo eins gott og Birkis? Nei“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Birkir er í frábæru formi
Birkir er í frábæru formi vísir/getty
Birkir Bjarnason var valinn maður leiksins í 3-0 sigri Aston Villa á Reading í ensku 1. deildinni í gærkvöld af staðarmiðlinum Birmingham Mail.

Birkir, sem skoraði fyrsta mark leiksins af löngu færi strax í upphafi seinni hálfleiks, fékk 8,5 í einkunn fyrir frammistöðu sína.

„Stjórnaði miðjunni og var ferskur og tilbúinn í leikinn. Skoraði glæsimark eftir að hafa misnotað dauðafæri snemma leiks. Skaut yfir nokkrum sinnum en í heildina stjórnaði hann leiknum eins og herforingi,“ segir í umsögn Birmingham Mail.

Birkir hefur verið frábær í síðustu leikjum Villa ásamt því að hann var meðal bestu manna í vináttulandsleikjunum gegn Mexíkó og Perú á dögunum.





Knattspyrnustjórinn Steve Bruce sagði Birki hafa átt einn besta leik sinn í búningi Villa í gær.

„Þetta var frábært mark frá Birki. Hann átti líklega sinn besta leik fyrir okkur, ég er ánægður fyrir hans hönd. Hann er mjög mikill keppnismaður og eins harður og menn gerast,“ sagði Bruce í viðtali við Express and Star.

Stuðningsmenn Aston Villa voru mjög ánægðir með frammistöðu Birkis í gærkvöld og margir hverjir voru á því að mark Birkis hefði verið betra en glæsimark Cristiano Ronaldo fyrir Real Madrid, en bæði komu á svipuðum tíma í gærkvöldi.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×