Erlent

Puigdemont sleppt úr haldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu.
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu. Vísir/AFP
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hefur verið sleppt úr haldi í Þýskalandi á meðan að ákvörðun verður tekin varðandi mögulegt framsals hans til Spánar. Þar hefur hann verið ákærður fyrir uppreisn. Puigdemont á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi verði hann framseldur.

Dómstóll í Þýskalandi útilokaði í dag að Puigdemont yrði framseldur vegna uppreisnarákærunnar en hann verður mögulega framseldur vegna ákæru um spillingu.

Puigdemont hefur verið í haldi í fangelsinu í Neumünster frá 25. mars, eða allt frá því hann kom til Þýskalands frá Danmörku. Hann hefur undanfarna mánuði verið í sjálfskipaðri útlegð frá Katalóníu eftir að Spánverjar felldu niður sjálfsstjórn héraðsins í október í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Spáni.

Fjöldi annarra ráðherra Katalóníu hafa verið ákærðir vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar og sitja nokkrir í fangelsi.


Tengdar fréttir

Vilja framselja Puigdemont

Saksóknarar í þýska bænum Schleswig fóru í gær fram á við dómstóla að Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, yrði framseldur til Spánar.

Tugir slösuðust í mótmælunum í Katalóníu

Talið er að að minnsta kosti 89 manns hafi slasast í fjölmennum mótmælum í Katalóníu á Spáni í gær þar sem þúsundir mótmæltu því að Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar héraðsins, hefði verið handtekinn í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×